Rúmelsi #2: Kaffipása í boði Laumulistasamsteypunnar

Rúmelsi # 2:

KAFFIPÁSA

Laumulistasamsteypan

27.11.2018-02.12.2018

Verið hjartanlega velkomin á Rúmelsi #2 í Nýlistasafninu: Kaffipása í boði Laumulistasamsteypunnar. Á opnunartímum safnsins býðst gestum og gangandi að staldra við, í lengri eða styttri tíma, og taka sér pásu ásamt meðlimum samsteypunnar. Kaffipása Laumulistasamsteypunnar stendur yfir dagana 27. nóvember til 2. desember.

Þetta er alveg að bresta á, við erum að fara að gera eitthvað stórkostlegt bara eftir smááá stund, einn kaffibolla í viðbót. Og kannski tíu dropa til. Vætum kverkarnar og búum okkur undir þetta allt saman. Þetta stóra mikla sem gerist beint eftir pásuna. Þetta verður nefnilega alveg klikkað sko – á eftir – þegar allt fer á fullt. En það er ekki alveg strax því fyrst ætlum við að hella uppá könnuna. Blása úr nös. Ótrúleg uppfinning þetta svart-bauna-seyði, en maður verður að passa sig að horfa ekki of lengi ofaní þennan dökka vökva eða hann horfir til baka.

Fólk kunni ekki að taka pásur fyrr en kaffi kom til sögunnar og það hafði eitthvað afkastavænt að gera í pásunum. Loksins gat það sest niður undir því yfirskini að drekka kaffi, því það að setjast niður eitt og sér væri hneisa – athafnaleysi og vitleysa. Svo var til fólk sem drakk ekki kaffi svo það fann upp á sígarettunni í staðinn svo það gæti líka tekið pásur. Það er nefnilega um að gera að slappa aldrei of mikið af, eða sko aldrei vera alveg án verkefnis.

Laumulistasamsteypan býður þátttakendum uppá tækifæri til þess að breyta sínum skapandi vendipunkti um stund, marinerast með öðrum heilum og beina allri sinni orku og athygli að því verkefni sem liggur fyrir hverju sinni. Samsteypan getur virkað sem listrænt vítamín fyrir þátttakendur sem síast inn smám saman og látið á sér kræla á óvæntum sviðum, jafnvel mánuðum eftir að samvistinni lýkur.
Laumulistasamsteypan samanstendur af hópi listamanna sem dvelja árlega og tímabundið saman í Hrísey, í Eyjafirði. Hún er residensía, matarklúbbur, furðuverk, hátíð, gengi, óvarpaður raunveruleikaþáttur, leiðangur, kommúna, útvarpsstöð og stuðningshópur en kannski fyrst og fremst sumarbúðir fyrir friðlausa listamenn.

Ásgerður Birna Björnsdóttir og Helena Aðalsteinsdóttir stofnuðu Laumulistasamsteypuna árið 2014 en hún er síbreytileg amaba þar sem lögun hennar ræðst af þörfum hópsins og skipuleggjenda. Stundum teygir samsteypan anga sína út fyrir landsteinana en á öðrum tímum skreppur hún aftur saman í kjarnastærð.

Meðlimir Laumulistasamsteypunnar 2014-2018: Ástríður Jónsdóttir, Sjuul Joosen, Sara Björg Bjarnadóttir, Arna María Kristjánsdóttir, Helena Aðalsteinsdóttir, Susan van Veen, Ásgerður Birna Björnsdóttir, Borghildur Tumadóttir, Gunnar Gunnsteinsson, Catoo Kemperman, Timna Tomisa, Helene Johanne Christensen, Simon Becks, Gunnar Örn Egilsson, Harriet Lansdown, Bára Bjarnadóttir, Bergur Thomas Anderson, Simon Brinck, Minne Kersten, Logi Leó Gunnarsson, Una Björg Magnúsdóttir, Natasha Taylor, Sjoerd van Leuuwen, Kristján Guðjónsson, Hrefna Guðmundsdóttir, Anton Logi Ólafsson, Sophie Lingg, Annahita Asgari, Eline Harmse og Thom van Hoek.

Hafðu samband

  • S: +354 551 4350
  • N: nylo(at)gamla.nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map