Yfirstandandi16.jan.2021 – 28.feb.2021

Veit andinn af efninu?

Veit andinn af efninu?
Ragnheiður Gestsdóttir, Sigrún Hrólfsdóttir, Sindri Leifsson
16.01–28.02.2021

Það sem er búið að gerast, hverfur ekki. Flestir ferlar daglegs lífs, náttúrulegir og manngerðir, varðveita einhvers konar efni — Það gufar kannski upp en fellur aftur til jarðar í formi rigningar, sem dæmi. Það sama á við um mannkynssöguna, hún hrannast upp og leggur grunn að þeirri framtíð sem sækir að — en aðeins ef búið er að skrásetja hana, mæla og spegla. Annars gerist nefnilega ekkert í alvörunni. 
 
Veit andinn af efninu? er könnunarferð um þau regluverk sem mannkynið hefur skapað sér í gegnum tíðina. Félagsleg, efnahagsleg, pólitísk og menningarleg kerfi vestræns samfélags sem móta og ákvarða veruleikann sem við lifum í og litast reyndar líka af ýmis konar togkröftum náttúrunnar sem erta skyntaugarnar. 
 
Verkin á sýningunni endurspegla viðleitni listamannanna til að greina og gera sýnilegan áhrifamáttinn sem kerfin byggja á og manneskjan á svo erfitt með að standast. Listamennirnir leita ekki eiginlegra svara, heldur reyna að koma auga á mismunandi leiðir til að skilja. Þannig verða verkin hvatar eða brot af frásögn sem afhjúpar það viðtekna og við getum sjálf raðað saman og bætt við að vild.

Sýningartexti

Yfirstandandi28.okt.2020 – 22.nóv.2020

Forðabúr

Útskriftarsýning meistaranema í myndlist 2020
Listaháskóli Íslands

Listamenn: Guðrún Sigurðardóttir, Hugo Llanes, Lukas Bury, Mari Bø, María Sjöfn, Nína Óskarsdóttir, Sabine Fischer, Sísí Ingólfsdóttir

Sýningarstjórn Hanna Styrmisdóttir

Útskriftarsýning meistaranema í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2020 undir yfirskriftinni Forðabúr – Supply opnar í Nýlistasafninu miðvikudaginn 28. október. Áætlaður opnunardagur var 10. október síðastliðinn en frestaðist vegna almennra lokana í samfélaginu.

Sýnendur eru Guðrún Sigurðardóttir, Hugo Llanes, Lukas Bury, Mari Bø, María Sjöfn, Nína Óskarsdóttir, Sabine Fischer og Sísí Ingólfsdóttir. Sýningin sem stendur til sunnudagsins 22. nóvember er jafnframt lokaviðburður Útskriftarhátíðar Listaháskóla Íslands 2020 sem teygir sig að þessu sinni yfir sex mánuði.

Í Forðabúri er sögð saga sem hægt er að nálgast frá mörgum sjónarhornum. Hún gæti hafist á fögrum sunnudagsmorgni í Varsjá fyrir sjötíu og sjö árum. Hún gæti líka hafist við Gunnuhver á Reykjanesi, í fyrrum Austur-Þýskalandi, á súraldinbúgarði í Mexíkó, IKEA verslun einhvers staðar í heiminum, eða í miðborg Reykjavíkur; fyrir þrjú hundruð árum, fjörtíu árum, eða á þessari stundu. E.t.v. rekjum við okkur í gegnum þráð í hekluðu móti um afsteypur, að síma og gervinöglum; eða við ferðumst frá örhreyfingum líkamans og jarðarinnar að því að snerta og móta, hlut, heimili, sögu, verk.

Í einni sýningu átta listamanna liggja margir þræðir og enn fleiri sögur. Hvernig sem við, sem stöndum að henni, staðsetjum okkur og sjónarhorn okkar, eru það áhorfendur sem að endingu setja hana saman.

Í Forðabúri – Supply er beint sjónum að þeim forða þekkingar, hæfni og aðferða sem byggist upp og endurnýjast í sífellu í rannsókn og nýsköpun listamanna; með æfingu, endurtekningu, ígrundun, mistökum og endurskoðun; samvinnu og samhæfingu við aðra. Forðabúrið er bæði einstaklingsbundið og sameiginlegt, samruni seiglu og sköpunar.

Sýnendur nota í verkum sínum blandaða tækni og miðlun, svo sem málverk, bókverk, þrívíddarprentun, keramík og hljóðmyndir; síma, kaðla og tjöru; ljósritun, kínetík og kóreógrafíu; vídeó, myndvinnslu, hekl, kappmellingu og afsteypugerð; trésmíði, texta, gervineglur, Ikea hillur, trjágreinar og flögg.

Yfirstandandi22.ágú.2020 – 4.okt.2020

Hjartsláttur – yfirlitssýning Ástu Ólafsdóttur

HJARTSLÁTTUR
yfirlitssýning Ástu Ólafsdóttur

22.08.–04.10.2020

Sýningin er opin frá og með 22. ágúst

Verið hjartanlega velkomin á yfirlitssýningu Ástu Ólafsdóttur í Nýlistasafninu, Marshallhúsinu. Sýningin er opið frá og með laugardeginum 22. ágúst og verður opin á hefðbundnum opnunartímum safnsins, miðvikudaga til sunnudaga frá klukkan 12–18.

Sýningin Hjartsláttur leiðir saman verk frá rúmlega fjörutíu ára myndlistarferli Ástu, frá námsárum hennar til dagsins í dag. Öll endurspegla þau á sinn hátt óþreytandi eltingarleik Ástu við fjölbreyttar víddir veruleikans. Þá einkum það sem við getum ekki snert og eigum til að líta framhjá í dagsins önn og amstri. Þögnina, tómið, hljóð og tilfinningar, en líka vald, jafnvægi og aðra menningarheima. Aflgjafa sem skilja eftir sig ummerki. Þá verður augljós sú staðreynd að manneskjan er hluti af stærri heild og náttúran er aldrei langt undan. Hún er stöðug og síbreytileg í senn, traustur ferðafélagi. Eins og listin.

Ásta Ólafsdóttir er fædd í Reykjavík 1948. Hún stundaði myndlistarnám í Nýlistadeild við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Jan Van Eyck Akademíuna í Hollandi. Listferill Ástu spannar rúmlega 40 ár af sýningarhaldi og Ásta er ein af virkustu myndlistarmönnum sinnar kynslóðar. Hún er tilraunagjörn í listsköpun sinni, bæði hvað varðar efnisval og myndmál. Hún hefur unnið í fjölbreytta miðla, þar á meðal vídeó og hljóð ásamt því að hún hefur verið virk í textagerð og bókaútgáfu. Ásta hefur miðlað þekkingu sinni með kennslu á öllum kennslustigum og verk hennar og ferill hafa haldist þétt í hendur við vaxandi umsvif kvenna í íslensku myndlistarlífi.

Það er sérstaklega ánægjulegt að yfirlitssýning Ástu skuli eiga sér stað og stund í Nýlistasafninu, safninu sem hún tók þátt í að stofna á sínum tíma. Allar götur síðan hefur hún tekið virkan þátt í starfssemi safnsins. Hér hélt hún sína fyrstu einkasýningu árið 1986 og í dag er hún heiðursfélagi í Nýló.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur!

Yfirstandandi14.júl.2020 – 9.ágú.2020

Ný aðföng

Verið velkomin á safneignarsýningu sumarsins í Nýlistasafninu, Ný aðföng. Á sýningunni má sjá úrval verka sem gefin hafa verið í safneign síðustu þrjú ár. Elstu verkin á sýningunni eru frá sjöunda áratug síðustu aldar og þau nýjustu eru aðeins nokkurra ára gömul. Á sýningunni má finna verk unnin í ýmsa miðla, þar á meðal textílverk, skúlptúra, ljósmyndir og innsetningar.

Sýningin stendur frá 14. júlí til 9. ágúst. Það verður engin hefðbundin opnun en listamannaspjall verður haldið þann 30. júlí og verður það kynnt betur síðar.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru:
Bjarki Bragason
Claudia Hausfeld
G.Erla
Hildur Hákonardóttir
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Kolbrún Ýr Einarsdóttir
Ragnheiður Ragnarsdóttir
Rúna Þorkelsdóttir

Yfirstandandi1.maí.2020 – 3.maí.2020

EINANGRA FAGNA ÚTFÆRA

EINANGRA FAGNA ÚTFÆRA

01.05–03.05 2020

Vefsýningaropnun: 1. maí 2020 kl. 18:00

Við kynnum með stolti vefsýninguna EINANGRA FAGNA ÚTFÆRA sem opnar á morgun, föstudaginn 1. maí kl. 18:00 á sarpur.is. Sýningin spannar verk úr stafrænum safnkosti Nýlistasafnsins og er stýrt af nemendum í myndlist við Listaháskóla Íslands og Listfræði við Háskóla Íslands. Við opnun verður hlekk á sýninguna deilt á facebook viðburði sýningarinnar, ásamt sýningarskrá með frekari upplýsingar um verkin, áhugaverð viðhorf listamannana á umfjöllunarefni sýningarinnar og því sem er að gerast í samfélaginu. Í tilefni af opnuninni verður einnig birt glænýtt vídeóverk eftir Silfrúnu Unu Guðlaugsdóttur á viðburðinum og á instagram síðu Nýlistasafnsins.

Listamenn:
Auður Lóa Guðnadóttir & Starkaður Sigurðarson
Geoffrey Hendricks
G.Erla, Karlotta Blöndal
Ragnheiður Káradóttir
Silfrún Una Guðlaugsdóttir
Steinunn Gunnlaugsdóttir
Vilda Kvist

Sýningarstjórar:
Brák Jónsdóttir
Helga Jóakimsdóttir
Katrín Björg Gunnarsdóttir
Klara Gradtman
Odda Júlía Snorradóttir
Paula Zvane
Sara Björk Hauksdóttir

Við lifum á tímum sýndarveruleika og einangrunar, þar sem kórónaveiran hefur stemmt innileika og gleði mannlegrar samveru í útrýmingarhættu og komið okkur í undarlega tilvistarkreppu. Samvera er ekki aðeins litin hornauga, heldur talin beinlínis hættuleg og hefur víða verið bönnuð. Í kjölfarið höfum við þurft að beita útsjónarsemi við að finna upp nýjar leiðir til að fagna félagslegum samkomum í gegnum Internetið sem gefur okkur færi á að líta innávið og sjá fögnuð og hátíðir í nýju ljósi.

Eftirleikur þeirra nýju lifnaðarhátta sem við höfum tileinkað okkur mun ef til vill birtast sem hungur eftir áþreifanlegum stað og stund, eftir þeirri líkamlegu samveru við aðra sem ekki getur verið afrituð á netinu. Við munum því fagna þegar farsóttin er yfirstaðin eins og við höfum fagnað góðum fréttum og gleðilegum viðburðum í gegnum tíðina. Við getum velt því fyrir okkur hvort að líkamlegt samband okkar við hvert annað sé breytt til frambúðar og hvað við höfum lært af þessari reynslu. Ef til vill gerum við okkur loks grein fyrir því að við þurfum ekki að vera með puttann stanslaust á púlsinum, að hvert sem við snúum okkur í heiminum blasir við okkur ofur-örvun og óyfirstíganleg innbyrðis tengsl.

EINANGRA FAGNA ÚTFÆRA fæst við óhefðbundnar leiðir til hátíðarhalda. Verkin ögra hugmyndum okkar um hátíðarhöld, hversu samtvinnuð þau eru félagslegu frelsi, og hvernig við heiðrum og tengjumst umhverfi okkar. Með nýrri sýn á heiminn og samveru, getum við skilið samruna manneskjunnar við hinn stafræna heim og vonandi öðlast betri skilning á tilgangi og tilveru okkar og þörf til að fagna því sem hingað til hefur ekki verið fagnað.

Mynd:
Vilda Kvist, This Moment Is So Much Bigger Than Me, 2013

Yfirstandandi24.mar.2020 – 13.apr.2020

Nýlistasafnið er lokað tímabundið

Í ljósi herts samkomubanns er Nýlistasafnið lokað.

Þetta er gert til að takmarka útbreiðslu kórónuveirufaraldsins. Samkvæmt fyrirmælum yfirvalda verður safnið lokað til og með 13. apríl.


Þó, eins og reynslan sýnir, gæti það breyst og við munum láta ykkur vita hér á heimasíðunni hvenær við opnum dyrnar að nýju.

Smellið hér til að lesa meira.

Yfirstandandi14.mar.2020 – 28.jún.2020

Erling Klingenberg

Erling Klingenberg
Erling T. V. Klingenberg

Sýningin Erling Klingenberg eftir listamanninn Erling T.V. Klingenberg verður opin frá og með laugardeginum 14. mars næstkomandi. Erling tekur yfir bæði sýningarrými Nýlistasafnsins og Kling & Bang í Marshallhúsinu og verður opin á opnunartímum (sjá hér að neðan). Sýningarstjóri er Daníel Björnsson. Sýningin stendur til 26. apríl 2020 og verða viðburðir tengdir sýningunni kynntir síðar.

Sýningin veitir skýra og nýja sýn á tengingar, samhengi og innihald verka frá 25 ára litríkum ferli listamannsins. Þannig kemur í ljós að verkin eiga mun meira sameiginlegt en kann að virðast í fyrstu.


Það er erfitt að vera listamaður í líkama rokkstjörnu, þetta eru nokkurs konar einkennisorð Erlings og gegnumgangandi stef í verkum hans þar sem hann rannsakar hugmyndina um listamanninn með heiðarleika og húmor. Í raun er það vinnuferlið sjálft frekar en lokaútkoman sem skipta höfuðmáli í verkum hans. Gefin verður út vegleg sýningarskrá í tengslum við sýninguna. Þar skrifa 11 höfundar hugleiðingar um verk hans auk Dorothée Kirch sem skrifar inngang, þar sem meðal annars segir:

„Ég er ekki hrifin af sjarmerandi karlkyns listamanninum (hver er það þessa dagana?) og öllu því sem honum fylgir. Einhver sem þekkir ekki til gæti haldið að Erling væri einn af þeim. […] þessum sem virðast greiða yfir ýmislegt með yfirþyrmandi narsissískum persónuleika og áorka hluti með því að vera mjög sjarmerandi og mjög karlkyns og alltof of oft mjög óviðkunnalegir. … Þá er Erling það einfaldlega ekki.“


Erling T.V. Klingenberg útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1994. Einnig nam hann í tvo vetur við Listaháskólanna í Kiel og Frankfurt við Main í Þýskalandi. Þaðan lá leiðin til Nova Scotia College of Art & Design í Halifax, Kanada og útskrifaðist hann þaðan árið 1997 með meistaragráðu í myndlist. Erling hefur sýnt víða bæði hérlendis og erlendis, t.d. í Austurríki, Búlgaríu, Þýskalandi, Sviss, Tékklandi, Danmörku, Svíþjóð, Hollandi, Írlandi, Póllandi, Bandaríkjunum, Kanada og í Kína. Auk þess að sinna eigin myndlist er Erling einn af stofnendum Kling & Bang gallerís (2003) sem einnig rak listamiðstöðina KlinK & BanK í tvö ár; 2004 og 2005.
Hann hefur ásamt rekstaraðilum Kling & Bang, skipulagt og unnið í nánu samstarfi við hin ýmsu verkefni með öðrum myndlistarmönnum, til dæmis Sheep Plug með Jason Rhoades og Paul McCarthy, kvikmyndin Skipholt með John Bock, Two Hanks með David Askevold, Hugris með Gelitin og Sirkus Bar á Frieze Project (Frieze Art Fair 2008), A Kassen (2012 og 2019 Kling & Bang) o.fl.

Yfirstandandi10.jan.2020 – 23.feb.2020

Nokkur uppáhalds verk

Nokkur uppáhalds verk
10.01.2020 – 23.02.2020

Opnun 10.01.2020 kl. 17.00–19.00

Douwe Jan Bakker, G.Erla – Guðrún Erla Geirsdóttir, Mihael Milunović, Rúrí

Safnkostur Nýlistasafnsins er fyrir löngu orðinn goðsagnakenndur. Það fer eftir því hvern þú spyrð hvort í safneigninni megi helst finna perlur íslenskrar samtímalistar, skömmustuleg bernskubrek ástsælustu samtímalistamanna þjóðarinnar eða plássfrek og misgóð verk sem listamenn hirtu ekki um að sækja að sýningum loknum. En hverjum þykir sinn fugl fagur og Nýló stendur vörð um og miðlar þessum menningararfi, hvað svo sem öðrum finnst.


Þegar sýningarstjórar heimsækja safngeymslurnar í þeim tilgangi og skoða verk sem þeir hafa áhuga á að hafa með í sýningu þá eru viðbrögðin stundum: „Ó, er þetta svona?“ Ímyndin sem þau voru með af verkinu í huganum og hvernig það tengist sýningarhugmynd þeirra helst ekki í hendur við upplifun af verkinu í eigin persónu.

En hvað með öll þessi verk? Sum þeirra eru alveg frábær en fá aldrei að fara lengra en úr geymslunni inn í millirými og til baka. Ýmist vegna stærðar, því verkið er minna eða stærra en fólk hafði ímyndað sér eða þá vegna umstangs til að gera það sýningarhæft, til dæmis innrömmun, forvarsla eða flókinn flutningur. Oft eru þetta líka sömu verkin sem sífellt er beðið um að sjá og valda síðan sýningarstjórum vonbrigðum og er á endanum hafnað. Maður tengist þessum verkum óneitanlega ákveðnum böndum.


Á þessari sýningu fá nokkur þessara verka frelsi til að vera til sýnis almenningi án pressu um að passa inn í eitthvað níðþungt curatorial concept, án þess að vera látin leika hlutverk í sögu safneignar Nýlistasafnsins og án þess að vera þvinguð í samtal við önnur verk á sýningunni. Þó er ekki þar með sagt að samtalið geti ekki átt sér stað þegar áhorfandi setur þau í sitt eigið samhengi en fyrst og fremst eru verkin hér til að standa á eigin fótum á eigin forsendum og eini hugmyndaramminn er að vera eitt af uppáhaldsverkum núverandi safneignarfulltrúa í safneigninni.

Sýningarstjóri: Birkir Karlsson

Mynd: Mihael Milunovic – Hluti af Mobile (War, Plague, Hunger, Hate, Death), 1999

Yfirstandandi2.jan.2020 – 5.jan.2020

Nýló Afmælispartý ! 4. jan 2020 !

NÝÁRS- OG AFMÆLISFÖGNUÐUR NÝLISTASAFNSINS 2020
[english below]

Kæru vinir,
Nýlistasafnið verður 42 ára! Því verður fagnað laugardaginn 4. janúar 2020 með afmælis- og nýársfögnuði sem mun sprengja alla stærðarskala! Glæsileg tónlistar- og gjörningadagskrá, Gin-bar og happadrætti. Verið öll hjartanlega velkomin í Marshallhúsið og fagnið með okkur nýju ári í Nýlistasafninu.

Húsið opnar kl. 20:00 og er aðgangur aðeins 1500 krónur. Fordrykkir í boði fyrir fyrstu gestina og barinn verður að sjálfsögðu opinn með veigar á góðu verði.

FRAM KOMA:
** Dj Höggó ** Myndhöggvarafélagið Í Reykjavík
** Dj Kling & Bang ** Kling & Bang
** We Are Not Romantic **
** Holdgervlar **
** Geigen **
** SODDILL **
** AXIS DANCEHALL**
** Bjartar sveiflur**

SÉRLEGIR GESTGJAFAR KVÖLDSINS:
Tara og Silfrún (Tara Njála Ingvarsdóttir & Silfrún Una Guðlaugsdóttir)

MEÐ SÉRSTAKRI AÐSTOÐ FRÁ: Sean Patrick O’Brien

Yfirstandandi1.des.2019 – 22.des.2019

Ljósabasar

Fjáröflun fyrir Nýlistasafnið
Listaverkabasar og viðburðir fyrir alla fjölskylduna

1.–22. desember 2019 í Nýlistasafninu

Opnar 1. desember kl. 12

Verið hjartanlega velkomin á Ljósabasar Nýlistasafnsins sem opnar sunnudaginn 1. desember kl. 12:00. Opið verður til 18:00.

Í desember taka fulltrúar Nýlistasafnsins höndum saman og efna til veglegs listaverkabasars í Nýlistasafninu þar sem listaverk yfir 50 listamanna verða til sölu. Verkin eru jafn fjölbreytileg og þau eru mörg en eiga það öll sameiginlegt að tengjast ljósi á skapandi hátt: Verk um ljós, verk sem lýsa, ljósainnsetningar, neonljós, kertaljós, ljósmyndir, huglæg ljós og áfram má endalaust telja. Markmiðið er að lýsa upp skammdegið. Ljósabasar Nýló er einstakt tækifæri til að gefa list í jólagjöf og fjárfesta í samtímalist á hagstæðu verði.

Basarinn fer fram í húsakynnum Nýlistasafnsins í Marshallhúsinu dagana 1.–22 desember. Fjölbreyttir viðburðir fyrir fólk á öllum aldri verða haldnir á meðan á basarnum stendur en dagskrána er að finna hér til hliðar.


Opnunartímar Ljósabasars Nýlistasafnsins

Þri–sun 12-18
Fim 12-21
Lokað á mánudögum

Verðlisti Ljósabasars

Smellið hér

Ljósabasar Nýló er fjáröflunarviðburður til stuðnings Nýlistasafnsins. Nýlistasafnið, eða Nýló eins og safnið er nefnt í daglegu tali, er listamannarekið safn og sýningarrými. Markmið Nýló er að varðveita og sýna samtímalist og vera vettvangur fyrir tilraunir og alþjóðlega umræðu um myndlist. Nýló hefur verið einn helsti vettvangur fyrir samtímalist á Íslandi og á einstakt safn verka eftir íslenska og alþjóðlega listamenn frá sjötta áratugnum til dagsins í dag.

Við hlökkum til að sjá ykkur. Áfram Nýló, tilraunagleðin og listin!


Dagskrá Ljósabasars Nýlistasafnsins

Sunnudaginn 1. desember 2019 kl. 12
Basar opnar. Jólaglögg og hátíðarstemning

Fimmtudaginn 5. desember 2019 kl. 18
Vinir Nýló. Arna Óttarsdóttir leggur lokahönd á vinaverk ársins 2020.
Vínyl-hlustunarpartý. Komdu með uppáhalds jólaplöturnar þínar.

Sunnudaginn 8. desember kl. 14-16
Gæðastund með börnunum. Jólaföndur og skuggaleikir. Skráning á nylo(at)gamla.nylo.is

Sunnudaginn 22. desember kl. 12-18
Lokadagur Ljósabasars

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

  • Nýlistasafnið
  • Marshallhúsið
  • Grandagarður 20
  • 101 Reykjavík
  • Ísland

Opnunartímar

  • mið til sun 12 – 18
  • lokað á mánudögum og þriðjudögum
  • Almenningssamgöngur

    • Strætó: 14
    • Stöð: Grandi

Hafðu samband

  • S: +354 551 4350
  • N: nylo(at)gamla.nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map