Joi de vivre! Nýlistasafnið lánar verk eftir Dieter Roth til Safnasafnsins 2017

Safnasafnið opnar að nýju eftir veturinn laugardaginn 13. maí kl. 14:00!

Sýningarnar árið 2017 eru unnar í samstarfi við fjölmarga listamenn, Nýlistasafnið (The Living Art Museum), Listahátíðina List Án Landamæra, Grenivíkurskóla, Leikskólann Álfaborg og Valsárskóla á Svalbarðseyri.

Safnið er opið alla daga frá klukkan 10.00 – 17.00 frá 14. maí til 3. september 2017.

Meðal sýninga þetta árið er uppsetning á verkum eftir listamanninn Dieter Roth þar sem lögð er áhersla á hið barnslega í verkum hans, uppátæki, myndir sem hann teiknaði með báðum höndum samtímis og rýnt er í sjálfsmyndir hans.Til að varpa skýrari ljósi á innihald sumra verkanna var afráðið að kynna gifsdýr eftir nemendur yngstu bekkja Grenivíkurskóla, og slá áfram þann barnslega tón sem sumum finnst þeir heyra óm af í verkum Dieters Roth.

Á sýningunni eru verk í eigu Safnasafnsins sem og 27 verk sem fengin voru að láni frá Nýlistasafninu.

Sýningar Safnasafnsins þetta árið eru tíu talsins, meðal listamanna sem sýna verk í ár eru;
Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir. Hún sýnir verkið Flæðilína sem unnið er sérstaklega fyrir Safnasafnið og tileinkað stofnendum þess. Birta Gudjonsdottir sýnir verk sitt Táknskilning og er unnið sem leið til aukinnar skynjunar á tengslum tákna, táknhelgi og líkamans.
Harpa Björnsdóttir sýnir verkið FÓRN.
Sýning Sigríðar Ágústsdóttur og Ragnheiðar Þóru Ragnarsdóttur ber nafnið Vorlaukar og sýna þær leirverk, málverk og ljósmyndir.
Matthías Rúnar Sigurðsson & Þorvaldur Jónsson eru af yngstu kynslóð myndlistarmanna og eru báðir úr Reykjavík. Á sýningu þeirra er stillt saman höggmyndum úr íslensku grágrýti og litríkum málverkum á krossvið.

Í bókastofu Safnasafnsins eru að þessu sinni sýnd verk úr safneign. Hulda Vilhjálmsdótti sýnir málverk, teikningar, bókverk og keramik, en auk þess eru myndverk eftir Erlu Þórarinsdóttur, Bjargeyju Ingólfsdóttur og Hálfdán Björnsson.

Safnasafnið var stofnað árið 1995 af þeim Níelsi Hafstein og Magnhildi Sigurðardóttur og er staðsett við Svalbarðsströnd í Eyjafirði.

Í safneigninni eru verk eftir 323 sjálfmenntaða og lærða listamenn en í heild telur safneignin rúmlega 6.000 listaverk. Innan safnsins er einnig sérstök safndeild, Kikó Korriró-stofa, en þar eru varðveitt um 120-130.000 verk eftir Þórð Guðmund Valdimarsson.

Safnasafnið hefur þá sérstöðu meðal listasafna á Íslandi að safna og sýna jöfnum höndum list eftir leikna sem lærða og má líta mikla breidd á sýningum safnsins. Á safninu er alþýðulist sem og framsækin nútímamyndlist sýnd án aðgreiningar en sú stefnumörkun sem safnið setur sér snýst um gæði og einlægni

Nánari upplýsingar eru á vefsíðu safnsins www.safnasafnid.is
Fyrirspurnir í síma 461-4066 / safngeymsla(at)simnet.is

Hafðu samband

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map