Milli fjalls og fjöru / Leiðsögn og listamannaspjall

Nýlistasafnið býður ykkur velkomin á leiðsögn og spjall um sýningu Rögnu Róbertsdóttur Milli fjalls og fjöru, sunnudaginn 8. apríl kl. 14:00.

Ragna Róbertsdóttir og Þorgerður Ólafsdóttir, annar sýningastjóri sýningarinnar, munu taka á móti gestum og leiða þá um sýningu Rögnu sem opnaði 24. mars sl.

Ferill Rögnu spannar yfir 30 ár af virku sýningarhaldi en fyrsta einkasýning hennar var í Nýlistasafninu árið 1986 þegar safnið var til húsa að Vatnsstíg 3b í miðbæ Reykjavíkur.

Verk Rögnu eru afrakstur áratuga langs áhuga listamannsins á eiginleikum íslenskrar náttúru og hugleiðinga um form og efni umhverfisins, hvað gerist við hreyfingu og úrvinnslu efnis? Ragna hefur fylgst með strandlengjunni í Arnarfirði í fjölda ára, hversu fjölbreytilegt lífríkið í fjörunni er, dag frá degi, frá fjöru til flóðs. Hvernig fjöllin með sínum hrjúfu hraunbeltum umfaðma dalinn og strandlengjuna. En hún hefur líka tekið eftir því hvernig ströndin breytist, skeljunum fækkar og annað efni skolast á land í staðinn.

Sýningarstjórar eru Þorgerður Ólafsdóttir & Becky Forsythe
Hönnun sýningar er í umsjón Ásmundar Hrafns Sturlusonar

Samhliða sýningunni hefur verið gefin út vegleg bók og yfirlit um feril Rögnu (Ragna Róbertsdóttir WORKS 1984 – 2017), sem gefur heildstæða mynd af verkum hennar frá 9. áratugnum til dagsins í dag.

Útgefandi bókarinnar er DISTANZ – http://www.distanz.de/de/books/new-publications/detail/backPID/new-publications/products/ragna-robertsdottir.html
Hægt er að nálgast eintak af bókinni í Nýlistasafninu á afar hagstæðu verði á meðan sýningunni stendur.

Leiðsögnin fer fram á íslensku og ensku og er ókeypis.

Hafðu samband

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map