Sýning á verkum úr safneign Nýlistasafnsins

Listamenn eru:
Dorothy Iannone
Eirún Sigurðardóttir
Freyja Eilíf Logadóttir
Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir
Jón Gunnar Árnason
Rúrí
Valdís Óskarsdóttir

Sýningastjórn í umsjón Þorgerðar Ólafsdóttur

101 spurning til kvenna er þriðja sýningin í röðinni Konur í Nýló sem hófst í byrjun árs 2015 þegar stjórn safnsins ákvað að rannsaka hlut kvenna í sögu og safneign Nýló.

Sýningin 101 Spurning til Kvenna er sú þriðja í röðinni Konur í Nýló sem hefur það að markmiði að varpa ljósi á hlut kvenna í safneign og sögu Nýlistasafnins. Titill sýningarinnar er úr prósa eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur og vísar í hvað hefur áunnist frá því að konur hlutu kosningarétt árið 1915.

Verkin á sýningunni hverfast um ólík baráttumál kvenna og mismunandi birtingarmyndir innri og ytri átaka. Verkin varpa fram viðbrögðum gegn hugmyndum um vald, (ó)jafnvægi, kúgun og viðteknum samfélagsvenjum – og meinum, gegnum tíðina, þá og nú.


Hvort er mikilvægara, spurningar eða yfirlýsingar?
Hvort er mikilvægara að tala eða hlusta?
Upp að hvaða marki er kúgun kvenna bundin annarri kúgun?
Upp að hvaða marki er baráttan gegn kúgun kvenna bundin baráttunni gegn annarri kúgun?
Upp að hvaða marki er baráttan gegn kúgun kvenna bundin annarri kúgun?
Er fjallkonan flugumaður í okkar röðum?
Hver er þolandinn í „kúgun kvenna“?
Erum við í eigu þvottahúss ríkisspítalanna eða er þvottahús ríkisspítalanna í eigu okkar?
Upp að hvaða marki er nekt æskileg í opinberu rými?
Hvað dylur skipulagið?
Hvenær er of mikið bleikt?
Er þetta of auðvelt?
Hversu mikilvægur er líkaminn?
Hvað með lyktina?
Vantar meira glimmer?
Er Píkusögur góð bók?
Er viðeigandi að óska hver annarri til hamingju með 100 ára afmæli kosningaréttarins?
Hvort viltu frekar fá vasaúr eða gullbryddaðan bréfahníf þegar þú lætur af störfum?
Er klám siðferðislegt eða fagurfræðilegt vandamál?
Hversu mikilvægur er efniviðurinn?
Hugsar þú ekki um neitt annað en kynlíf?
Hvort kom á undan, eggið eða konan?
Framleiðandi, neytandi eða bara milliliður?
Erum við klippiverk?
Má drepa?
Af hverju að sýna píkur?
Gilda einhverjar reglur um baráttuna?
Ef já, hver setur reglurnar?


Hversu mikilvægar eru sjálfvirkar þvottavélar?
Þurfum við stuðning?
Er betra ef ég segi þetta á öðru tungumáli?
Má ekki bjóða ykkur meira af þessu lítilræði?
Hver er skaparinn?
Hvar á okkar heimur uppruna sinn?
Hefur þú hugsað um kynlíf í fjölskylduboðum?
Ef já, hugsar þú um kynlíf vegna eða þrátt fyrir nærveru fjölskyldu þinnar?
Hvernig er best að matreiða fylgjuna?
Hversu mikilvæg er aðferðin?
Er gróft vont?
Á það að vera gaman?
Á það að vera fallegt?
Á það að vera erfitt?
Á það að vera viljandi?
Getum við smitast?
Átti sér stað frelsun?
Ef já, hver græddi mest á frelsuninni?
Hvað er svona merkilegt við það?
Er ekki ágætt að vera viðrini?
Hvort er hættulegra að snerta eða vera snert?
Hvort er hættulegra að sjá eða vera séð?
Verður það hlutur minn í helvíti að staga?
Hvað geta prjónar valdið miklum skaða?
Hvað er gervi við gervilim?
Hvort er betra að vera feitur þjónn eða barinn þræll?
Hvað ef þrælnum finnst gott að láta berja sig?
Getur tvíhyggjan verið góð?
Hversu sveitt er of sveitt?
Hefur kvenlíkaminn verið afhelgaður?
Erum við til í að fórna grimmdinni?
Hvar tekur ásetningurinn við af eðlinu?
Má það vera grunnhyggið?