Nýlistasafnið býður ykkur hjartanlega velkomin á sýninguna Prýði undir sýningarstjórn Becky Forsythe.

Þegar við prýðum í hefðbundnum skilningi orðsins, skreytum við einstakling eða hlut til fegrunar og áhersluauka. Verkin hér á sýningunni eiga það sameiginlegt að hverfast um orðið prýði. En ekki þannig að líta ætti á þau sem skraut eða að tilgangur þeirra sé að vera einhvers konar glingur. Í hverju verki á sýningunni má finna eiginleika prýðis sem tekur á spurningum um fegurð í samhengi hversdagsleikans. Verkin geyma hugmyndir um ákveðna afbyggingu og draga fram mótsagnir sem tengjast heimilisstörfum eða eiga uppruna í hinu skipulagða og fyrirfram ákveðna heimilisumhverfi. Hér bergmálar rýmið af áskorunum og viðfangsefnum þess manngerða.

Listamennirnir á sýningunni, sem allar eru konur, hafa unnið með hversdaginn á þann hátt að við, áhorfendurnir, getum ekki annað en litið í eigin barm og velt fyrir okkur eigin hugmyndum um kvenhlutverkið og fegurð, en einnig til sögunnar og ímynd konunnar innan heimilisins.


Hin prýddu eru hér ekki á borð borin sem skraut. Hérna er rúmið sett fram sem líkamleg hefting; Skörp og beitt form minna okkur á hryggjarsúlu og vekja með okkur óþæginda-tilfinningu; Hinir upphöfnu líkamspartar, hliðstæða kvenleikans, vísa í ólokna sögu sem hlutgerist í aldagamalli handavinnu og nostri; Spjöldin sem geyma hina “útvöldnu” getnaðarvörn mynda útlínur fígúra sem virðast ræða saman; Hlutar húss bundnir og vegnir niður af saumþráðum; Tillaga að nýjum þjóðbúningi kvenna er jafnframt atlaga og aðlögun að nútímanum.

Hinu heimilislega er sankað saman og það kortlagt með tilliti til rýma heimilisins og líkamans. Þessi hagræðing hins hefðbunda fær okkur til að líta á samband okkar við áðurnefnd viðfangsefni. Hugmyndir og efni leitast eftir að endurmóta fyrri skoðanir okkar og sýn. Verkin á sýningunni færa okkur í raun aftur í tímann en minna okkur jafnframt á að enn eimir af því sem áður var.


Sum verkanna hafa verið sýnd áður í Nýlistasafninu en þreyta hér frumraun sína í Lifandi Safneign. Önnur er verið að taka í fyrsta sinn upp úr kössum síðan þau voru gefin safninu. Prýði er önnur sýningin í sýningarröðinni Konur í Nýló og má hér líta verk eftir Önnu Líndal, Erlu Silfá Þorgrímsdóttur, Hildi Hákonardóttur, Svölu Sigurleifsdóttur og Þóru Sigurðardóttur.