Nýlistasafnið býður ykkur á opnun sýningarinnar Art / Work með nýjum verkum eftir Emil Magnúsarson Borhammar.

Stundum safna ég steinum eða elgsskít. Stundum þræði ég í gegnum allar tímarits-greinar se, ég finn um myndlist. Stundum teikna ég. Stundum geng ég í gegnum verslunarmiðstöð með hundinum mínum án þess að hafa hann í ól.

Á sýningu sinni í Nýló mun Emil sýna verk sem hann hefur unnið hér heima á Íslandi og á meðan hann dvaldi í vinnustofu á vegum Iaspis myndlistarsamtakana í Stokkhólmi núna sl. vor og sumar.

Á sýningunni er meðal annarra listaverka eitt vídeó þar sem Emil sést tína 90.240 steina á síðasta ári sínu í Konstfack listaháskólanum. Fjöldi steinanna samsvarar sömu upphæð og hann fékk í námslán í sænskum krónum talið það ár.


Í öðru vídeóverki safnar hann 90.000 barrnálum sem samsvarar þeirri upphæð sem hann hlaut í styrk frá Iaspis samtökunum í Svíþjóð. (Emil flutti barrnálarnar með sér til Íslands til þess að hafa á sýningunni hérna heima þar sem þær komust fyrir í farangrinum hans, en steinarnir voru svo fyrirferðamiklir og þungir að hann gat ekki, né hafði efni að flytja þá hingað).

Í verkunum sést Emil velta vöngum yfir þessari athöfn sinni að tína og safna; sem nemi á námslánum og sem listamaður á styrk og yfirfærir hugmyndir sínar yfir á stærri fleti er varða vinnu, hagfræði, myndlist og vald.

Í októbermánuði hefur Emil verið boðin vinnustofuaðstaða og styrkur í gegnum SÍM – Samband Íslenskra Listamanna í Reykjavík. Á meðan hann dvelur í vinnustofunni mun hann safna hlutum við strendur Reykjavíkur, m.a. sjóreknu gleri. Hlutirnir munu koma til að verða jafnmargir og upphæðin sem hann hlýtur í styrk frá SÍM.

Á meðan að sýningunni stendur mun Emil halda áfram að safna og bæta við sýningu sína í Nýlistasafninu.


Emil Magnúsarson Borhammar lauk meistaragráðu í myndlist frá Konstfack í Stokkhólmi fyrr á þessu ári og útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2009. Sem nýlegar sýningar og verkefni má nefna Studio 17 í Husby Konsthall, ABF-Huset, Skövde kulturhus, Skövde Konstmuseum, Listasafnið í Gautaborg, Borgarbókasafnið I Gautaborg, Liljevalchs’ Spring Salon og Skaraborgssalongen.

Sýningin mun standa til sunnudagsins 15. nóvember.

Dvöl Emils í vinnustofu SÍM er styrkt af Nordic-Baltic Mobility Programme.

Nýlistasafnið í Breiðholti er opið þri – fös milli kl. 12 – 17
og lau-sun milli 13 – 17

Aðgangur ókeypis