EINANGRA FAGNA ÚTFÆRA

01.05–03.05 2020

Vefsýningaropnun: 1. maí 2020 kl. 18:00

Við kynnum með stolti vefsýninguna EINANGRA FAGNA ÚTFÆRA sem opnar á morgun, föstudaginn 1. maí kl. 18:00 á sarpur.is. Sýningin spannar verk úr stafrænum safnkosti Nýlistasafnsins og er stýrt af nemendum í myndlist við Listaháskóla Íslands og Listfræði við Háskóla Íslands. Við opnun verður hlekk á sýninguna deilt á facebook viðburði sýningarinnar, ásamt sýningarskrá með frekari upplýsingar um verkin, áhugaverð viðhorf listamannana á umfjöllunarefni sýningarinnar og því sem er að gerast í samfélaginu. Í tilefni af opnuninni verður einnig birt glænýtt vídeóverk eftir Silfrúnu Unu Guðlaugsdóttur á viðburðinum og á instagram síðu Nýlistasafnsins.

Listamenn:
Auður Lóa Guðnadóttir & Starkaður Sigurðarson
Geoffrey Hendricks
G.Erla, Karlotta Blöndal
Ragnheiður Káradóttir
Silfrún Una Guðlaugsdóttir
Steinunn Gunnlaugsdóttir
Vilda Kvist

Sýningarstjórar:
Brák Jónsdóttir
Helga Jóakimsdóttir
Katrín Björg Gunnarsdóttir
Klara Gradtman
Odda Júlía Snorradóttir
Paula Zvane
Sara Björk Hauksdóttir

Við lifum á tímum sýndarveruleika og einangrunar, þar sem kórónaveiran hefur stemmt innileika og gleði mannlegrar samveru í útrýmingarhættu og komið okkur í undarlega tilvistarkreppu. Samvera er ekki aðeins litin hornauga, heldur talin beinlínis hættuleg og hefur víða verið bönnuð. Í kjölfarið höfum við þurft að beita útsjónarsemi við að finna upp nýjar leiðir til að fagna félagslegum samkomum í gegnum Internetið sem gefur okkur færi á að líta innávið og sjá fögnuð og hátíðir í nýju ljósi.

Eftirleikur þeirra nýju lifnaðarhátta sem við höfum tileinkað okkur mun ef til vill birtast sem hungur eftir áþreifanlegum stað og stund, eftir þeirri líkamlegu samveru við aðra sem ekki getur verið afrituð á netinu. Við munum því fagna þegar farsóttin er yfirstaðin eins og við höfum fagnað góðum fréttum og gleðilegum viðburðum í gegnum tíðina. Við getum velt því fyrir okkur hvort að líkamlegt samband okkar við hvert annað sé breytt til frambúðar og hvað við höfum lært af þessari reynslu. Ef til vill gerum við okkur loks grein fyrir því að við þurfum ekki að vera með puttann stanslaust á púlsinum, að hvert sem við snúum okkur í heiminum blasir við okkur ofur-örvun og óyfirstíganleg innbyrðis tengsl.

EINANGRA FAGNA ÚTFÆRA fæst við óhefðbundnar leiðir til hátíðarhalda. Verkin ögra hugmyndum okkar um hátíðarhöld, hversu samtvinnuð þau eru félagslegu frelsi, og hvernig við heiðrum og tengjumst umhverfi okkar. Með nýrri sýn á heiminn og samveru, getum við skilið samruna manneskjunnar við hinn stafræna heim og vonandi öðlast betri skilning á tilgangi og tilveru okkar og þörf til að fagna því sem hingað til hefur ekki verið fagnað.

Mynd:
Vilda Kvist, This Moment Is So Much Bigger Than Me, 2013