Nýlistasafnið og Byggðasafnið í Görðum, Akranesi býður ykkur velkomin á opnun Sýningu hinna glötuðu verka kl 14:00 þann 1. nóvember.
Sýning hinna glötuðu verka er samsýning íslenskra og erlendra listamanna ásamt völdnum verkum úr safneign Nýlistasafnsins.

Listmennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Anna Fríða Jónsdóttir, Andrea McGinty, David Shapiro, Haraldur Jónsson, Huginn Þór Arason, Ívar Valgarðsson, Jamie Sneider, John M. Armleder, Kate Gilmore, María Dalberg, Perry Bard, Unndór Egill Jónsson, Unnur Mjöll S. Leifsdóttir og Þóranna Björnsdóttir.

Sýningarstjórar eru Eva Ísleifsdóttir, Logi Bjarnason og Katrín Inga Jónsd. Hjördísardóttir. Verkefnastjóri er Anna Leif Elídóttir fyrir hönd Byggðasafnsins í Görðum.

Á laugardaginn verður hægt að fara siglandi á opnun sýningarinnar. Báturinn fer kl 13:00 frá Reykjavíkurhöfn, Ægisgarði 13, og siglir með gestina til Akraness. Boðið verður upp á fordrykk í bátnum. Þegar í Akraneshöfn er komið verður keyrt með rútu í Byggðasafnið.

Ferðin fram og tilbaka í bátnum ásamt rútu kostar 2.500 kr.

Hægt er að panta miða í bátinn með því að leggja inn á reikning: 515-26-69590 kt: 551079-1559 með skýringu: BÁTUR og miðinn verður klár við innganginn í bátinn.

Athugið að sætafjöldi er takmarkaður þannig að áhugasamir eru hvattir til að bóka miða í fyrra lagi.

Sýning hinna glötuðu verka spratt út frá Kvöldum hinna glötuðu verka þar sem listamönnum var boðið að sýna verk sem að þeir hefðu ekki sýnt áður af einni eða annarri ástæðu. Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að hafa mögulega týnst, safnað ryki á vinnustofu listamannsins, ekki enn orðið að veruleika eða hafa aldrei verið sýnd hér á landi áður. Eins má geta að í safneign Nýlistasafnsins eru fjöldi verka sem fyrri stjórnir og listamenn lögðu á eitt að innleiða í verkaeign Nýló sem annars hefðu mögulega glatast eða skemmst og þar með horfið úr sögunni.

Verkefnið er samstarfsverkefni Nýlistasafnins og Byggðasafnsins í Görðum og hlaut styrk frá Menningarráði Vesturlands og Myndlistarsjóði.