Útskriftarsýning meistaranema í myndlist 2020
Listaháskóli Íslands

Listamenn: Guðrún Sigurðardóttir, Hugo Llanes, Lukas Bury, Mari Bø, María Sjöfn, Nína Óskarsdóttir, Sabine Fischer, Sísí Ingólfsdóttir

Sýningarstjórn Hanna Styrmisdóttir

Útskriftarsýning meistaranema í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2020 undir yfirskriftinni Forðabúr – Supply opnar í Nýlistasafninu miðvikudaginn 28. október. Áætlaður opnunardagur var 10. október síðastliðinn en frestaðist vegna almennra lokana í samfélaginu.

Sýnendur eru Guðrún Sigurðardóttir, Hugo Llanes, Lukas Bury, Mari Bø, María Sjöfn, Nína Óskarsdóttir, Sabine Fischer og Sísí Ingólfsdóttir. Sýningin sem stendur til sunnudagsins 22. nóvember er jafnframt lokaviðburður Útskriftarhátíðar Listaháskóla Íslands 2020 sem teygir sig að þessu sinni yfir sex mánuði.

Í Forðabúri er sögð saga sem hægt er að nálgast frá mörgum sjónarhornum. Hún gæti hafist á fögrum sunnudagsmorgni í Varsjá fyrir sjötíu og sjö árum. Hún gæti líka hafist við Gunnuhver á Reykjanesi, í fyrrum Austur-Þýskalandi, á súraldinbúgarði í Mexíkó, IKEA verslun einhvers staðar í heiminum, eða í miðborg Reykjavíkur; fyrir þrjú hundruð árum, fjörtíu árum, eða á þessari stundu. E.t.v. rekjum við okkur í gegnum þráð í hekluðu móti um afsteypur, að síma og gervinöglum; eða við ferðumst frá örhreyfingum líkamans og jarðarinnar að því að snerta og móta, hlut, heimili, sögu, verk.

Í einni sýningu átta listamanna liggja margir þræðir og enn fleiri sögur. Hvernig sem við, sem stöndum að henni, staðsetjum okkur og sjónarhorn okkar, eru það áhorfendur sem að endingu setja hana saman.

Í Forðabúri – Supply er beint sjónum að þeim forða þekkingar, hæfni og aðferða sem byggist upp og endurnýjast í sífellu í rannsókn og nýsköpun listamanna; með æfingu, endurtekningu, ígrundun, mistökum og endurskoðun; samvinnu og samhæfingu við aðra. Forðabúrið er bæði einstaklingsbundið og sameiginlegt, samruni seiglu og sköpunar.

Sýnendur nota í verkum sínum blandaða tækni og miðlun, svo sem málverk, bókverk, þrívíddarprentun, keramík og hljóðmyndir; síma, kaðla og tjöru; ljósritun, kínetík og kóreógrafíu; vídeó, myndvinnslu, hekl, kappmellingu og afsteypugerð; trésmíði, texta, gervineglur, Ikea hillur, trjágreinar og flögg.