Nýlistasafnið býður þér hjartanlega velkomin/nn á opnun einkasýningu Rebeccu Erin Moran, Laboratory Aim Density – FOREVER! just ended., laugardaginn 18. október frá klukkan 16:00-19:00. Sýning Rebeccu er sú fyrsta í nýuppgerðu verkefnarými safnsins í Völvufelli 13-21.

Fyrir sýninguna hefur Rebecca byggt innsetningu í rýminu sem umgjörð og svið utan um gjörninga og atburði. Innsetningin vísar bæði í tilraunakennda kvikmyndagerð og gjörningahefðina þar sem listakonan vinnur með tungumál, efni og ferli filmunnar. Á meðan á sýningunni stendur mun Rebecca búa til kvikmynd. Hún mun skjóta á Bólex vél, framkalla filmurnar á staðnum, klippa, mála á þær og vinna með þær sem efnivið. Sýningin er samtal Rebeccu, kvikmyndavélarinnar og sviðsmyndarinnar þar sem hver hluti hefur áhrif og þjónar ákveðnu hlutverki. Takmörkunum, tækni og mannlegri getu er stillt saman svo úr verður samkruðl frávika, óhappa og hendingar. Litur hér, form þar, athöfn frosin í tíma.

Áhugasamir sem vilja taka þátt í verkinu geta haft samband við listamanninn með því að senda línu á rebekka.moran@gmail.com


Á sýningunni varpar Rebecca fram spurningunni – hvað gerist eftir endalokin?

Hvað gerist eftir byssurnar og stríðið?

Eftir að öllum hefur verið traðkað niður í gólfið? Eftir að einum brauðbita er skipt fyrir poka af gulli? Eftir allt tilgangslausa plottið? Eftir að hin þríþætta uppbygging hrynur niður? Eftir að kveikjurnar eru ekki lengur til staðar? Eftir allar helvítis væntingarnar? Eftir allar aðalleik-konurnar? Eftir öll brotabrotin? Eftir að hnén hætta að skjálfa? Eftir rassatappana? Eftir að öll hasstöggin klárast? Eftir Munchen? Eftir Bólex? Eftir stillimyndirnar? Eftir að sultukrukkan brotnar? Eftir þetta árans eldgos? Eftir að sólin sest? Eftir að uppblásnu dúkkurnar springa í tætlur? Eftir alla þessa hlandvolgu heimsenda? Eftir koddahjalið? Eftir alla kurteisu forleikina? Eftir alla reiðina? Eftir að hún lítur við? Eftir endalok Paradísar? Eftir að þú uppgötvar að afslöppun var aðeins pínleg fyrir þig? Eftir að hafa týnst í skóginum? Eftir að hinar lifandi kyrrmyndir sölna? Eftir að allir gjörningarnir gerast? Eftir að hið tilraunakennda verður eðlilegt? Eftir að nýja norminu verður aflýst? Eftir að allir sæluskotnu hipparnir fljóta á braut? Eftir að mennirnir tveir ganga upp á þessa hæð? Eftir allar tæknilegu takmarkanirnar? Eftir að þú skiptir um skoðun? Eftir að búið er að framkalla allar filmurnar?

Hvað verður eftir?


Rebecca Erin Moran hefur búið og starfað í Reykjavík í nær áratug. Hún útskrifaðist með BFA gráðu frá School of the Art Institute í Chicago árið 2000 og flutti í kjölfarið til Rotterdam í Hollandi. Nýleg verkefni og sýningar eru Laboratory Aim Density, Kunstraum München, Munich, Þýskaland. Laboratory Aim Density, Glasmoog Kunsthochschule fur Medien, Cologne, Þýskaland. Laboratory Aim Density. Performance Nijmegen, Holland. The Five Live Lo Fi :: Screen Test í Kling og Bang gallerí, Listahátíð í Reykjavík 2014. Rolling Repeat Cycle Turns, einkasýning í Gallery Þoku og Don’t Stop Now, ‘Cause We’re Having a Time,vSequences Listahátíð 2013. Að auki hafa verk Rebeccu verið sýnd víðsvegar í Evrópu, Ameríku og Asíu.

Við endalok sýningarinnar þann 13. nóvember verður kvikmyndin sýnd við lifandi undirleik. Nánari upplýsingar um endalokin verða tilkynnt síðar. Sýningastjóri er Þorgerður Ólafsdóttir, formaður Nýlistasafnsins.

Nýlistasafnið er opið þriðjudaga-laugardaga frá 12-17