Nýlistasafnið býður ykkur hjartanlega velkomin á sýninguna HÓPSÝNING eftir myndlistamanninn Örn Alexander Ámundason.

Ég vildi ekki halda þessa sýningu. Aðstandendur Nýló ýttu mér út í þetta. Þau hafa hins vegar ekki staðið við bakið á mér og fylgst með ferlinu. Það væri jafnvel hægt að segja að þau hafi staðið í vegi fyrir ýmsum verkefnum sem tengjast sýningunni og lagt stein í götu mína. Ég mætti skilningsleysi og höfnun frá þeim. Þess vegna er hægt að segja að þetta sé sýningin sem enginn elskar. Annað sem ég vil koma á framfæri er að ég hefði viljað hafa meiri tíma til að setja upp sýninguna og vinna að henni.

HÓPSÝNING

Þetta er alltaf sama sagan. Þau reyndu að sannfæra mig um að skrifa meira hefðbundinn texta fyrir sýninguna. Þau vildu hafa texta með tilvitnunum í gamla franska heimspekinga og orð eins og „ófullkomleiki“, „ferðalag“ og „lífrænt“.


Ég þvertók fyrir það. Ég sagði: „Ég ætla ekki að taka þátt í þessu, og vera með enn einn svona textann. Í þetta skiptið ætla ég að segja satt, ég ætla að segja það sem mér finnst og það er ekkert sem þið getið gert í því.“ Ég þurfti meira að segja að fara á bakvið þau til þess að koma þessum texta í prent.

HÓPSÝNING

Þegar við ákveðum að setja upp sýningu er ekki hægt að ætlast til þess að neitt sé gefið. Að halda að allt komi af sjálfu sér. Það þarf að huga að lýsingunni, hún er ekki gefin. Það þarf að loka fyrir glugga (kannski). Það þurfa að vera titlar og aðrar upplýsingar einhvers staðar. Það er ekkert ósýnilegt, þetta eru allt ákvarðanir sem við þurfum að taka.

HÓPSÝNING

Hópsýning er samsetning af listaverkum sem einhvern veginn enduðu saman. Verkið er þar af því að það er þar, og af því að enginn var að nota stóra vegginn hjá útganginum.


Örn Alexander Ámundason útskrifaðist frá Listaháskólanum í Malmö árið 2011. Á síðustu árum hefur Örn sýnt meðal annars í Listasafninu á Akureyri, Lunds Konsthall, Galleri F15, Röda Sten Konsthall, Tidens Krav, Suðsuðvestur, Sogn- og Fjordane Kunstmuseum, The Armory Show og Brandenburgischer Kunstverein.

Hann hefur einnig flutt gjörninga í Nýlistasafninu, Sequences 2011, ACTS International Festival for Performative Art, Samtalekøkken, Nikolaj Kunsthal, Landmark (Bergen) og Göteborg International Biennal for Contemporary Art.

Framundan hjá Erni eru sýningar í Trondheim Kunstmuseum, Platform Arts Belfast, Kunstmuseum Lichtenstein, SØ Copenhagen og Verksmiðjunni á Hjalteyri.