Ragna Róbertsdóttir
Milli fjalls og fjöru / Between mountain and tide
24.03.18 – 19.05.18

Það er Nýlistasafninu sönn ánægja að kynna sýningu Rögnu Róbertsdóttur, Milli fjalls og fjöru sem opnar laugardaginn 24. mars. Ferill Rögnu spannar yfir 30 ár af virku sýningarhaldi en fyrsta einkasýning hennar var í Nýlistasafninu árið 1986 þegar safnið var til húsa að Vatnsstíg 3b í miðbæ Reykjavíkur.

Í verkum Rögnu sameinast hugmyndir okkar um villta náttúru og manngert umhverfi í eitt. Maðurinn hefur haft áhrif á náttúruna frá því að hann fór að færa til steina, steina sem við getum enn séð standa í Bretlandi og Frakklandi. Allt í kringum Rögnu er þessi tegund hreyfðar náttúru, hvort sem hún er stödd á Hóli í Arnarfirði, í vinnustofu sinni í miðbæ Reykjavíkur eða á heimili sínu í Moabit hverfinu í Berlín.

Talið er að á Íslandi upplifi fólk í kringum fimm eldgos á ævinni. Með hverju gosi breytist landslagið. Náttúran er ekki kyrr, hún er stöðugt á hreyfingu, á milli okkar, vegna okkar og annarra afla. Tilhneiging okkar til þess að safna náttúru og hafa hana nálægt okkur er sterk allt frá barnsaldri. Við þurfum ekki að líta lengra en ofan í úlpuvasa barna eftir stutta fjöruferð til þess að vera minnt á að kúskeljar, steinvölur og skeljabrot eru gersemar.


Verk Rögnu eru afrakstur áratuga langs áhuga listamannsins á eiginleikum íslenskrar náttúru og hugleiðinga um form og efni umhverfisins, hvað gerist við hreyfingu og úrvinnslu efnis? Ragna hefur fylgst með strandlengjunni í Arnarfirði í fjölda ára, hversu fjölbreytilegt lífríkið í fjörunni er, dag frá degi, frá fjöru til flóðs. Hvernig fjöllin með sínum hrjúfu hraunbeltum umfaðma dalinn og strandlengjuna. En hún hefur líka tekið eftir því hvernig ströndin breytist, skeljunum fækkar og annað efni skolast á land í staðinn.

Verk Rögnu úr hrauni, vikri, salti, gleri, skeljum eða akrýlögnum, hafa sterkar skírskotanir í náttúruna, hreyfiafl hennar og breytileika. Hér er náttúra Íslands aðflutt. Eins og hún kemur upp úr jörðinni, upp úr sjónum, upp úr vösum okkar og Rögnu Róbertsdóttur.

Sýningarstjórar eru Þorgerður Ólafsdóttir & Becky Forsythe
Hönnun sýningar er í umsjón Ásmundar Hrafns Sturlusonar


Samhliða sýningunni verður gefin út vegleg bók frá forlaginu DISTANZ um feril Rögnu sem gefur heildstæða mynd af verkum hennar frá 9. áratugnum til dagsins í dag.
Textahöfundar bókarinnar eru Gregory Volk og Markús Þór Andrésson.

Hönnun og uppsetning er í umsjón Studio Studio (Arnar Freyr Guðmundsson & Birna Geirfinnsdóttir).

Ragna Róbertsdóttir (f. 1945) býr og starfar í Reykjavík og Berlín. Verk hennar hafa verið sýnd víða í Evrópu, Norður Ameríku, Kína og Ástralíu.

Á meðal nýlegra sýninga og verkefna Rögnu eru Staðir / Places í Arnarfirði (2016), Four Parts Divided, i8 (2016), Seascape, Listasafnid á Akureyri (2013), Firðir/Fjords, ásamt Hörpu Árnadóttur, Bíldudalur í sýningastjórn Markúsar Þórs Andréssonar (2012), Mindscape, Hamish Morrison Galerie, Berlín (2010), sýningar í Bury Art Gallery Museum + Archives, Bury, Englandi (2008), New Bedford Art Museum, Massachusetts, USA (2005), Chinese European Art Center, Xiamen, Kína (2004), Lisatsafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum (2004) og Listasafni Íslands (2003).