… og hvað svo?

13.06–04.08.19
opnun kl. 18:00

Andreas Brunner, Eva Ísleifs, Freyja Eilíf, Fritz Hendrik IV, Huginn Þór Arason, Libia Castro & Ólafur Ólafsson, Rebecca Erin Moran, Rúna Þorkelsdóttir, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Þorvaldur Þorsteinsson, Þórður Ben Sveinsson

Verið velkomin á sýningaropnun … og hvað svo? fimmtudaginn 13. júní 2019 kl. 18:00.

Og hvað svo? Þessi orð fela í sér samtíning andstæðra tilfinninga. Undrun, uppgjöf, ótta og vanmátt. Tilhlökkun, gleði, spennu og von. Forvitni og afskiptaleysi. Þessir ólíku þræðir mætast allir í óvissunni.


Óvissunni um það sem hefði getað orðið, varð eða varð ekki og það sem koma skal. Óvissu sem rífur okkur upp úr núinu og inn í annan tíma, á nýja áfangastaði og inn í aðrar mögulegar atburðarásir. Og hvað svo?

Á sumarsýningu Nýlistasafnsins í ár mætast verk ellefu listamanna sem, hvert fyrir sig og í samtali sín á milli, ávarpa hið yfirvofandi og rannsaka listina sem áhrifavald. Hvað segir hún okkur um framtíðina? Getur listin breytt því sem á eftir að gerast? Jafnvel mörgum árum eftir að verkið var skapað? Hjálpar listin okkur að kljást við raunveruleikann eða hverfa á vit annarra heima? Hvert þá? Hvernig getur list verið pólitísk? Með því að taka afstöðu? Eða hjálpa okkur að flýja hversdaginn? Sýna okkur eitthvað sem jafnvel getur aldrei orðið?


Framtíðin er ekki enn gengin í garð og er því bæði óáþreifanleg og fjarlæg en sýningin er tilraun til að færa hana nær. Vettvangur til vangaveltna, til að skipta um skoðun. Verkin á sýningunni bjóða gestum að dvelja í óvissunni um stund. Þau hringsóla um hið ókomna, kaótíska og hræðilega, en líka drauminn um útópíur – því róttæk hugsun, skýjaborgir og hörmungaheimar framtíðarinnar nærast á tilhugsuninni um eitthvað betra.

Sýningarstjóri: Sunna Ástþórsdóttir

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóð og Safnaráði