Sýningin er framhald ferlis í listsköpun Bryndísar, þar sem listakonan fæst við mörk efnis og túlkun rýmis. Tilraunir þar sem niðurstaðan liggur oft á landamærum hins efnislega; hluta og gjörða og þess óræða; hugsana, ímyndunar og tilfinninga. Sýningar hennar; Hrynjandin er dansfífl, í gallerí Suðsuðvestur árið 2011 og Snjór á himnum í Kling & Bang gallerí árið 2009, eru dæmi um þessa nálgun.

Í Psychotronics teflir Bryndís Hrönn saman tvennskonar reynslu af líkama. Í einu tilviki er manneskjan hlutuð niður í skrásetningu, af nokkrum óháðum aðilum, til þess að hún geti svo sett saman eftirmynd sína í klassíska höggmynd. Í öðru, bregst líkami manneskjunnar við tónlistarflutningi. Dansandi líkaminn knýr fram ólík form sem orsakast af samsettri gjörð líkt og í höggmyndinni. Að auki gerir Bryndís tilraunir með hljóð-tvístrara í formi lágmynda þar sem hún leikur sér að vísunum í möguleg áhrif á samspil skynfæra áhorfandans.

Titill sýningarinnar, Psychotronics, vísar í hugtak sem varð til árið 1967 og lýsir tilraunakenndum rannsóknum í dulsálarfræði og kenningum sem urðu til á áttunda áratug síðustu aldar um orku sem lifandi verur gefa frá sér og geta haft áhrif á efni. Hugtakið er síðar notað almennt yfir óútskýrð áhrif á líðan og upplifun.

Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir hlaut BFA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2002 og MFA frá Akademie Der Bildenden Kunste í Vínarborg árið 2006. Meðal nýlegra sýninga hennar eru Samsæti Heilagra í Listasafni Íslands í samvinnu við Gunnhildi Hauksdóttir, Hrynjandin er Dansfífl í Suðsuðvestur árið 2011 og Snjór á himnum í Kling og Bang gallerí árið 2009. Þá hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis, nú síðast Calculated Sustainability without Decisions í Reykjavík á síðasta ári. Hún hefur sýnt í Kunsthalle Wien og Kunsthalle Krems í Austurríki og í Woodstreet Galleries í Pittsburgh BNA.

Bryndís hefur fengist við sýningarstjórn og útgáfu myndlistartengds efnis. Hún var ein af þremenningunum Signal in the Heavens, og hluti af hóp sem stóð að Hringferðinni; sýningarverkefni sem ferðaðist hringinn í kringum Ísland, hún stýrði gjörningadagskrá við opnun DottirDOTTIR í Berlín í samvinnu við Voin de Voin. Bryndís er ein stofnenda kvennakórsins Hrynjandi sem hefur m.a. komið fram í Leikhúsi listamanna og tekið þátt í uppsetningu á gjörningi Magnúsar Pálssonar á Listahátíð í Reykjavík árið 2012, svo fátt eitt sé nefnt.

Á Safnanótt 7. febrúar er listamannaspjall með Jóni Proppé klukkan 20:00, opið verður í safninu til miðnættis.