YFIRLESTUR
myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins

22.04. – 02.09.2017
SJÓNDEILDARHRINGUR
Völvufell 13 – 21, Breiðholt
Opið eftir samkomulagi

Myndlist í bókaformi er mótsagnakennt fyrirbæri: Bækur sem líta þarf á sem myndlistaverk, myndlist sem lesa þarf sem bókmenntaverk. Bókverk krefjast óhefðbundins lesturs sem felur ekki aðeins í sér að lesa texta heldur einnig lestur á hinu sjónræna, áþreifanlega og hugmyndalega; greiningu á formi og tegund bókarinnar sjálfrar.

Á sýningunni YFIRLESTUR má sjá myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins en þar er að finna um 800 titla sem mynda jafnframt stærsta safn bókverka á Íslandi. Sýningin er í formi lesstofu þar sem gestum gefst kostur á að skoða úrval verka úr safneigninni, eftir íslenska og erlenda listamenn, frá sjöunda áratug síðustu aldar til dagsins í dag.


Lesstofan er einnig rannsóknaraðstaða sýningarstjórans og verður einkabókasafn hans sem samanstendur af ýmsum heimildum um bókfræði og bókverk aðgengilegt gestum á meðan sýningunni stendur. Þar verður einnig hægt að hlusta á útvarpsþátt Níels Hafsteins um viðfangsefnið sem nefnist „Viðkvæmur farangur“ og var á dagskrá Rásar 1 árið 1986.

„Bókasafnið“ er óreiðukennt en um leið einstakt safn myndlistarverka og samanstendur af „annarskonar“ bókum sem ratað hafa þangað með ýmsum leiðum á síðustu fjörutíu árum. Rétt eins og bókverkin krefst bókasafnið óhefbundins lesturs ef gera skal tilraun til að átta sig á innihaldi þess. Því munu fara fram þrír þematískir yfirlestrar á bókasafninu á meðan sýningunni stendur og titlum lesstofunnar verður skipt út jafnóðum.

Í fyrsta yfirlestri sýningarstjórans á bókasafni Nýlistasafnsins er þemað SJÓNDEILDARHRINGUR.


Markmið sýningarinnar er að draga fram úr bókahillum safnsins verk sem sjaldan eða aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings og rannsaka bókina sem myndlistarmiðil í samtímanum. Form sýningarinnar sameinar rými safneignarinnar, bókasafnsins og sýningarsalarins, og vekur upp spurningar um framsetningu og miðlun á myndlist í bókaformi: bækur sem lesandi á að horfa á og list sem áhorfandi á að lesa.

Í tengslum við sýninguna fer fram dagskrá þar sem hlýða má á upplestra úr bókum lesstofunnar og taka þátt í umræðum mynd- og rithöfunda um bókaformið. Viðburðirnir fara fram fyrsta laugardag í hverjum mánuði og verða nánar auglýstir síðar. Sýningin er hluti af yfirstandandi rannsókn Heiðars Kára Rannverssonar á íslenskum bókverkum en stefnt er að því að gefa út bók um efnið síðar á árinu.

Rannsóknin hlaut styrk úr Myndlistarsjóði og Safnasjóði.