Eftir illviðrasaman vetur opnar Kristín Helga Káradóttir einkasýninguna Vorverk í verkefnarými Nýlistasafnsins við Völvufell í Breiðholti fimmtudaginn 14. maí frá klukkan 18:00 – 20:00. Sýningin Vorverk er sú síðasta í sýningaröðinni Hringhiminn og er hluti af dagskrá 29. Listahátíðar í Reykjavík 2015.

Með draumkenndum raunsæistón fagnar listakonan komu vorsins með tilheyrandi togstreitu við hið innra og hið ytra.  Veturinn hefur losað tök sín og umbreyting árstíðanna birtist í hráum sýningarsal í manngerðu umhverfi fjarri náttúrunni. Jarðveg sýningarinnar skapaði listakonan út frá samfélaginu í kringum Nýlistasafnið í Fellahverfi en jafnframt út frá veruleika listamannsins, einyrkjanum í sýningarsalnum.  Á mörkum listforma mætast þessir tveir pólar. Vorverk fela í sér hreinsun andans ekki síður en umhverfisins og skapa grunn fyrir vöxt og einingu lífs.


Kristín Helga Káradóttir nam myndlist við Listaháskóla Íslands, lauk þaðan BA gráðu árið 2004 og MA gráðu árið 2014. Á námsárunum fór hún í skiptinám í Listakademíuna í Kaupmannahöfn og á Fjóni. Kristín Helga á að baki sýningarhald og vinnustofudvalir innan- sem utanlands. Verk hennar hafa ferðast víða um heiminn á sýningar og myndbandahátíðir.

Líkaminn og leikræn tjáning er öflugur miðill í verkum Kristínar Helgu. Verkin spanna myndbandsverk, gjörninga, ljósmyndir og innsetningar en mest vinnur Kristín Helga á mörkum þessara listmiðla. Listakonan notar sjálfa sig í gjörningaverk sín en upp á síðkastið hefur hún fengið til liðs við sig aðra flytjendur. Verk Kristínar Helgu eru tilvistarlegs eðlis, miðla ástandi og líðan manneskjunnar í tilteknu umhverfi en jafnframt hefur listkonan brugðið á leik með það að markmiði að setja áhorfendur í spurn eða kalla fram viðbrögð þeirra. MA-útskriftarverk Kristínar Helgu var langvarandi gjörningur í Gerðarsafni í Kópavogi er nefndist Andvarp.


Dagskrá
14.maí kl 18:00 opnun
30.maí kl 15:00 listamannspjall
Sýningin er opin til 13.júní

Opnunartími Nýlistasafnsins
Þriðjudaga til laugardaga 12:00 – 17:00

Sýningarstjóri er Eva Ísleifsdóttir