Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, Freyja Eilíf, Heiðrún Viktorsdóttir, Sigthora Odins verða með opnun á STREYMI í Nýlistasafninu, föstudaginn 14. desember 20:00 – 22:00.

Sýningin er þriðji partur af sýningaröð safnsins „Rúmelsi“ þar sem áhersla er lögð á frumkvæði listamanna og er Streymi sýningarviðburður Ekkisens í sýningaröðinni. Opið verður þessa einu helgi, laugardag og sunnudag 12:00 – 18:00. Gerningar á opnun og léttar veigar!


STREYMI er rúmelsi, sem á sér stað í vernduðu millirými, hlöðnu upp með gerningarverkum sem kynna starfsemi Ekkisens á huglægan hátt. Fyrir rúmelsið hafa seiðsysturnar Freyja Eilíf, Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, Heiðrún Viktorsdóttir og Sigthora Odins tengt saman rásir sínar og dregið upp hring. Rúmelsið þeirra er almynd úr orkumynstri og þráðum sem eru spunnir úr samstilltu hugðarefni.

Stream-spirit-puddle-power er óformlegt heiti á kollektífi myndlistarkvennanna sem hafa streymt saman í lífi og starfi frá árinu 2016. Listrænar rannsóknir þeirra eru fasafléttur sem leiða saman snúrur úr heimum myndlistar, frumefna, fjölvíddar og fjölkynngis. Fljótandi samstarf þeirra spannar t.a.m. sýningarstjórn og verk á Fjöltengi (2015), Kynleikum (2015), Stream in a puddle (Tallinn Art Week, Eistlandi 2016), Computer Spirit (Tromsö, Noregi 2018) og útgáfu á tímaritinu Listvísi (2015- ). Í gegnum sýningarstörf í Ekkisens lá leið hópsins í Streymi saman og úr varð seiðsystrateymi sem nú hefur spannað af sér tveggja ára samtal.


Ekkisens hefur verið starfrækt af Freyju Eilíf sem rými utan um sýningar, útgáfur og sköpun frá árinu 2014, á jarðhæð í bárujárnshúsi á Bergstaðastræti sem hefur nú haldið utan um yfir 60 listræna viðburði. Að auki hefur Ekkisens haldið utan um þónokkrar alþjóðlegar ferðasýningar, nú síðast „Synthetic Shorelines“ í Los Angeles sem hlaut afar jákvæða umfjöllun eftir rithöfundinn Genie Davis á Riot Material. Heiðrún Viktorsdóttir starfaði í Ekkisens árið 2015 og hlaut Ekkisens tilnefningu til menningarverðlauna DV fyrir listræna stjórn 2016 árið eftir og Freyja Eilíf var handhafi Tilberans sama ár fyrir hugrekki og framtaksemi á sviði myndlistar.

Mynd:
„Hola“
Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir
35 mm filma
2016

Nánari upplýsingar:
ekkisens.com