Eygló Harðardóttir er myndlistarmaður ársins 2019!

Eygló Harðardóttir var valin myndlistarmaður ársins fyrir sýningu sína í Nýlistasafninu, Annað Rými, á Íslensku Myndlistarverðlaununum sem haldin voru við hátíðlega athöfn í gær, fimmtudaginn 21. febrúar. Leifur Ýmir Eyjólfsson hlaut hvatningarverðlaun ársins fyrir sýninguna Handrit í Listasafni Reykjavíkur.

Nýlistasafnið óskar báðum listamönnum innilega til hamingju og þakkar um leið Eygló kærlega fyrir samstarfið á liðnu ári! Við erum afskaplega stolt af sýningunni Annað Rými en á Listasafni Reykjavíkur má um þessar mundir líta augum verkið Gler Skúlptúr sem sett hefur verið upp í Hafnarhúsinu af tilefni verðlaunanna. Verkið eignaðist stað í safneign Listasafns Reykjavíkur meðan á sýningunni stóð í Nýló.

Í umsögn dómnefndar segir að sýningin Annað rými hafi borið titil sinn með réttu. „Með verkum sem í senn voru fínleg og stórkarlaleg, unnin í viðkvæman efnivið, opnaði listakonan fyrir gáttir sem áhorfandinn gat smeygt sér inn fyrir og aukið skynjun sína og næmi á kostnað hinnar vanabundnu rökhyggju.“ Segir meðal annars. Dómefnd skipaði Aðalsteinn Ingólfsson, Jóhann Ludwig Torfason, Sigurður Guðjónsson, Margrét Kristín Sigurðardóttir og Hanna Styrmisdóttir.

Mynd með frétt: Vigfús Birgisson

map