Opnun S7 – Suðurgata >> Árbær (ekki á leið)

Verið velkomin á opnun sýningarinnar í Árbæjarsafni, föstudaginn 30. maí kl. 17.

Erla Silfá Þorgrímsdóttir, Hrafnhildur Helgadóttir, Sæmundur Þór Helgason & Styrmir Örn Guðmundsson. Anna Hrund Másdóttir, Arna Óttarsdóttir, Arnar Ásgeirsson & Leifur Ýmir Eyjólfsson.

Sýningin og útgáfan, sem einnig verður fagnað sama dag, sækir efnivið og innblástur í starfsemi sem átti sér stað í galleríi við Suðurgötu 7, í miðbæ Reykjavíkur á árunum 1977 til 1982 í húsi sem nú stendur á Árbæjarsafni. Starfseminni var haldið úti af ungu listafólki sem stóð að afkastamikilli sýningarstarfsemi sem og útgáfu tímaritsins Svart á hvítu.

Nú hefur fjórum upprennandi listamönnum verið boðið að vinna ný verk fyrir sýninguna. Listamennirnir Erla Silfá Þorgrímsdóttir, Hrafnhildur Helgadóttir, Sæmundur Þór Helgason og Styrmir Örn Guðmundsson vinna verk sín inn í marglaga sögu hússins, arkitektúr þess og safnafræðilegt samhengi. Einnig hafa verið valin verk sem kallast á við þá sögulegu sviðsetningu sem sett hefur verið upp í húsinu; þau eru eftir listamennina Önnu Hrund Másdóttur, Örnu Óttarsdóttur, Arnar Ásgeirsson og Leif Ými Eyjólfsson.

Verkefnið leiðir saman tvær ólíkar stofnanir, Nýlistasafnið og Minjasafn Reykjavíkur. Í Nýlistasafninu er heimildasafn um listamannarekin rými. Þar á meðal er að finna heimildir tengdar Gallerí Suðurgötu 7, en þetta er í fyrsta sinn sem starfsemi þess er gerð skil með þessum hætti. Minjasafn Reykjavíkur varðveitir húsið sjálft, Suðurgötu 7, sem var flutt í heilu lagi á Árbæjarsafn árið 1983 og þar má kynna sér sögu þess framundir aldamótin 1900.

Sýningin stendur yfir frá 31. maí – 31. ágúst.

Verkefnið er hluti af Listahátíð í Reykjavík 2014.

Sýningarstjórnun; Unnar Örn Jónsson & Heiðar Kári Rannversson

Verkefnastjórnun; Gunnhildur Hauksdóttir & Bergsveinn Þórsson

Hafðu samband

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map