Rolling Line – Leiðsögn á sumardaginn fyrsta

Opin leiðsögn um Rolling Line

– Fimmtudaginn 20. apríl kl. 20:00
– Nýlistasafnið, 2. hæð, Marshallhúsið
– Grandagarður 20, 101 RVK

Nýlistasafnið býður ykkur hjartanlega velkomin á leiðsögn um sýninguna Rolling Line með verkum eftir Ólaf Lárusson í Marshallhúsinu, á sumardaginn fyrsta.

Þorgerður Ólafsdóttir, formaður stjórnar Nýlistasafnsins og annar af sýningarstjórum Rolling Line, verður með leiðsögn um sýninguna á fyrsta degi sumars, fimmtudaginn 20. apríl, klukkan 20:00.

Leiðsögnin er ókeypis og opin öllum.
Happy Hour tilboð á Marshall Restaurant & Bar verða fram til klukkan 21:00.

Sýningin Rolling Line spannar rúman áratug af verkum og listheimildum eftir Ólaf Lárusson (1951 – 2014). Ólafur var afkastamikill listamaður og tók virkan þátt í að móta áherslur innan myndlistarsenunnar á Íslandi sem stóð á ákveðnum tímamótum um miðjan 8. áratuginn.

Ólafur var í hópi þeirra myndlistarnema sem sögðu sig úr námi við Myndlista – og handíðaskóla Íslands árið 1974 sökum stöðnunar og hélt út til Hollands í kjölfarið þar sem hann stundaði frekara nám við hinn virta Atelier ’63 í Haarlem. Ólafur útskrifaðist úr skólanum árið 1976 og flutti heim til Íslands sama ár þar sem honum var boðið að kenna kvikmyndagerð við Deild í mótun, nýja deild innan MHÍ, sem seinna var nefnd Nýlistadeild.

Ólafur var einn af stofnaðilum Nýlistasafnsins og var stórtækur í framgangi gjörningalistar á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem verk Ólafs eru sýnd saman í viðleitni til að draga upp heildræna mynd af afkastamestu árum listamannsins.

Á sýningunni eru verk eftir Ólaf í eigu Nýlistasafnsins, einnig Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Safnasafninu og Listasafni ASÍ, ásamt ótal verkum sem safnarar, vinir og vandamenn Ólafs, hafa góðfúslega lánað á sýninguna.

Hafðu samband

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map