Nýlistasafnið flytur safneign sína upp í efra Breiðholt

Á nýlegum fundi fundi borgarráðs var tillaga að rammasamningi milli Nýló og borgar samþykkt. Samningurinn felur í sér tæplega 400m2 húsnæði í Völvufelli 13-21, 111 Reykjavík, fyrir starfsemi safneignarhluta Nýló.

Menningar og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar styrkir Nýló fyrir hluta af leigukostnaði og verða drög lögð að samstarfssamningi þessara aðila til fimm ára, með möguleika á framlengingu í önnur 5 ár á sömu leigukjörum.

Safnið mun geyma safneign sína, sem telur um 2.000 verk, ásamt heimildarsöfnunum í Völvufellinu Þar mun stjórn setja upp 2 sýningar með verkum úr safneign á ári, á haust og vormisseri. Ennfremur mun Nýló bjóða upp á leiðsagnir, fræðslu og rannsóknaraðstöðu er varða safneign og heimildarsöfn Nýló.

Þetta er visst skref fyrir Nýlistasafnið, að skipta starfseminni upp í sýningarými annars vegar og lifandi safneign hinsvegar. En jafnframt er safneignin fyrir löngu orðin að sjálfstæðu fyrirbæri innan Nýló og mun vafalaust hjálpa til og taka þátt í þeirri góðu uppbyggingu sem er nú í fullum gangi í Breiðholtinu.

Til að byrja með mun safnið hafa starfsmann í Völvufelli í hluta úr viku og eftir samkomulagi. Stjórn býst við að flytja safneign sína í lok maí mánaðar.

Leitin að húsnæði undir sýningarstarfsemina heldur áfram. Ekkert er í hendi en viðræður eru í gangi varðandi nokkra möguleika. Stjórn heldur áfram að vinna að fjáröflun fyrir húsnæði ásamt verkefnastjóra þessa framtaks, Kristínu Maríu Sigþórsdóttur. Fjáröflunin fer fram yfir sumarið og endar á lifandi uppboði í september með tilheyrandi sýningu á verkum listamanna sem styðja málefnið.

Hafðu samband

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map