Fjáröflun og uppboð Nýlistasafnsins verða haldin í Safnahúsinu frá 19. – 23. nóvember

Nýlistasafnið eða Nýló er eitt af elstu listamannareknu söfnum í Evrópu og skipar einstakan sess sem menningarstofnun á Íslandi. Safnið er ekki rekið í hagnaðarskyni heldur í þágu framþróunar og varðveislu myndlistar hér á landi.

Nýló er sjálfseignarstofnun og í dag eru fulltrúar þess yfir 350 starfandi listamenn og einstaklingar sem vinna á mismunandi sviðum menningargeirans.

Nýlistasafnið hefur lengi verið miðstöð nýrra strauma og tilrauna í myndlist og hafa margar sýningar í Nýló markað tímamót í íslenskri listasögu.

Myndir, verk á uppboðinu
Til vinstri: Time /Pavillion II verk eftir Rúrí
Til hægri: Nordic Soap eftir Arnar Ásgeirsson

Nýló hefur oft þurft að flytja gegnum tíðina vegna óstöðugs leigumarkaðs og lítilla fjárráða. Fulltrúar Nýló ásamt fleiri listamönnum hafa nú gefið safninu listaverk til þess að fjármagna húsnæðisflutninga safnsins og koma fyrir í varanlegri aðstöðu.

Ýtið hér til að fara á heimasíðu uppboðsins eða á linkinn til hægri.

Fjáröflunin og uppboðið opnar með sýningu á verkunum í risi Safnahússins, Hverfisgötu 15, miðvikudaginn 19. nóvember kl. 17:00

Nýló opnaði safnaheimkynni sín á dögunum í Völvufelli 13-21 þar sem safneigninni og heimilda-söfnunum hefur verið komið fyrir. Einnig hefur rýmið á efri hæð hússins, gamla bakaríið verið tímabundið leigt út, þar sem stjórn mun setja upp sýningar næsta árið á meðan leitað er að varanlegra sýningarými.

Nýlistasafnið var stofnað árið 1978 af framsæknu myndlistarfólki en kjarni þeirra hafði áður starfað innan SÚM hópsins. Nýló er listamannarekið sýningarrými og safn, vettvangur framsækinnar myndlistar, viðburða, umræðna og gjörninga.

Eitt af markmiðum Nýló er að halda utan um sögu myndlistar hér á landi og varðveita listaverk og heimildir sem tengjast frumkvöðlastarfi innan íslenskrar myndlistar.

Árið 2010 hlaut Nýlistasafnið Íslensku Safnaverðlaunin sem veitt eru annað hvert ár til safns sem þykir skara fram úr með starfsemi sinni.

Hafðu samband

  • S: +354 551 4350
  • N: nylo(at)gamla.nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map