Veit andinn af efninu?
Ragnheiður Gestsdóttir, Sigrún Hrólfsdóttir, Sindri Leifsson
16.01–28.02.2021

Það sem er búið að gerast, hverfur ekki. Flestir ferlar daglegs lífs, náttúrulegir og manngerðir, varðveita einhvers konar efni — Það gufar kannski upp en fellur aftur til jarðar í formi rigningar, sem dæmi. Það sama á við um mannkynssöguna, hún hrannast upp og leggur grunn að þeirri framtíð sem sækir að — en aðeins ef búið er að skrásetja hana, mæla og spegla. Annars gerist nefnilega ekkert í alvörunni. 
 
Veit andinn af efninu? er könnunarferð um þau regluverk sem mannkynið hefur skapað sér í gegnum tíðina. Félagsleg, efnahagsleg, pólitísk og menningarleg kerfi vestræns samfélags sem móta og ákvarða veruleikann sem við lifum í og litast reyndar líka af ýmis konar togkröftum náttúrunnar sem erta skyntaugarnar. 
 
Verkin á sýningunni endurspegla viðleitni listamannanna til að greina og gera sýnilegan áhrifamáttinn sem kerfin byggja á og manneskjan á svo erfitt með að standast. Listamennirnir leita ekki eiginlegra svara, heldur reyna að koma auga á mismunandi leiðir til að skilja. Þannig verða verkin hvatar eða brot af frásögn sem afhjúpar það viðtekna og við getum sjálf raðað saman og bætt við að vild.

Sýningartexti