Núllið verður heimkynni Pönksafns Íslands

Nýlistasafnið vill óska nýjum leigjendum að Núllinu, Bankastræti 0, þeim Guðfinni Sölva Karlssyni, Dr. Gunna, Axel Hallkeli Jóhannessyni og Þórdísi Claessen sem saman standa utan um Pönksafn Íslands, til hamingju með nýju aðstöðuna.

Hópurinn er nú að vinna að fyrstu sýningunni sem að kemur til með að opna á Airwaves hátíðinni 2016. Sýningunni er ætlað að rekja sögu pönksins á Íslandi og fanga tíðaranda tímabilsins með munum og ljósmyndum.

Að eigin sögn þykir fjórmenningunum rýmið síður en svo of lítið og mjög vel til þess fallið að hýsa safnið sem þeir segja vera tileinkun á pönkinu sem í þeirra huga hafi undirbúið jarðveginn fyrir velgengni íslenskrar tónlistar í dag.

Nýlistasafnið tók við lyklunum að kvenna-salerninu í Bankastræti 0 í árslok 2014 og hóf þá að umbreyta aðstöðunni í sýningarrými í samvinnu með arkitektastofunni kurtogpi. Helgi Sigurðsson arkitekt hannaði salernin sem opnuðu formlega á alþingis-hátíðinni 17. júní árið 1930. Starfsemin neðanjarðar minnkaði verulega um síðustu aldamót og var þeim að endingu lokað árið 2006.

Reykjavíkurborg hafði haft mikinn áhuga á að endurvekja starfsemi í rýminu neðanjarðar, nema af öðru meiði. Borgin hafði samband við stjórn Nýlistasafnsins og bauð safninu að leigja rýmið án gjalds í eitt ár og setja upp sýningar neðanjarðar og þar sem glæða jarðhúsin aftur lífi.

Salernin eru friðuð af Minjavernd og var því mikil áskorun fyrir arkitektana Ásmund Hrafn Sturluson og Steinþór Kára Kárason að vinna rýmið að nýju og aðlaga það að nýju hlutverki.

Fyrsta sýningin Nýlistasafnsins í Núllinu opnaði áður en endanlegum endurbótum lauk, á Sequences VII myndlistarhátíðinni í apríl 2015. Viðgerðum á rýminu lauk seinna um sumarið og tók þá við áframhaldandi sýningardagskrá safnsins.

Sýningar og viðburðir safnsins neðanjarðar voru;

Being Boring / Sýningastjórar Gareth Bell-Jones og Gemma LloydJohn Baldessari, Phil Coy, Lucy Clout, Emma Hart, William Hunt, Sam Porritt og Peter Wächtler

prik/ strik – Kristín Rúnarsdóttir

Nothing Really Matters (except me) Simon Buckley

Væntanlegt / Brynjar Helgason, Ívar Glói Gunnarsson, Logi Leó Gunnarsson og Una Björg Magnúsdóttir.

The apparent impossibility of zero / Ragnar Helgi Ólafsson / Sequences VII

Aðrir viðburður neðanjarðar voru til að mynda opnun á Dulkápunni á Hönnunarmars sem að stóð fyrir fjölbreyttri viðburðadagskrá samhliða sýningunni.

Hafðu samband

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map