Archive for febrúar, 2014

S7 – Suðurgata >> Árbær (ekki á leið)

feb 10 2014 Published by under Uncategorized

S7 – Suðurgata >> Árbær (ekki á leið) 

Listamenn eru Erla Silfá Þorgrímsdóttir, Hrafnhildur Helgadóttir, Sæmundur þór Helgason, Styrmir Örn Guðmunsson, Anna Hrund Másdóttir, Arna Óttarsdóttir, Arnar Ásgeirsson og Leifur Ýmir Eyjólfsson.

Sýningastjórar er Unnar Örn J. Auðarson og Heiðar Kári Rannversson.

Umsjón með útgáfu Unnar Örn, Heiðar Kári Rannversson, Gunnhildur Hauksdóttir og Bergsveinn Þórsson.

Umbrot og hönnun bókar er í höndum Arnars Freys.

Verkefnið er samvinnuverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Minjasafns Reykjavíkur og Nýlistasafnsins.

S7 – Suðurgata >> Árbær (ekki á leið) er sýning og útgáfa sem sækir innblástur í starfsemi sem átti sér stað í galleríi við Suðurgötu 7 í miðbæ Reykjavíkur á árunum 1977 til 1982. Starfseminni var haldið úti af ungu listafólki sem stóð að afkastamikilli og þverfaglegri menningar-starfsemi; myndlistarsýningum, uppákomum, málþingum, kvimyndasýningum og tónleikum auk þess sem gefið var út tímaritið Svart á Hvítu. Verkefnið er tilraun til þess að gera starfseminni skil, en jafnframt viðleitni til að horfa á hana í sögulegu samhengi samtímalistar og byggja þannig upp nýja frásögn.

Sýningin gefur tveimur ólíkum stofnunum, Nýlistasafninu og Minjasafni Reykjavíkur, tilefni til samstarfs. Í Nýlistasafninu er heimildasafn um frumkvæði listamanna og listamannarekin rými en þar er varðveitt mikið af heimildum tengdum gallerí Suðurgötu 7, sem verður í fyrsta sinn gerð skil í tengslum við þessa sýningu. Minjasafn Reykjavíkur varðveitir aftur á móti húsið sjálft, Suðurgötu 7, sem var flutt í heilu lagi á Árbæjarsafn árið 1983. Menningarstarfsemi gallerí Suðurgötu 7 hefur ekki verið gerð sýnileg á Árbæjarsafni en húsið, sem er kallað Hjaltestedshús, hefur hingað til verið notað til að sviðsetja heimili og umhverfi efnafólks fá því um aldamótin 1900.

Fjórum upprennandi listamönnum hefur verið boðið að vinna ný staðbundin verk fyrir sýninguna sem sett verður upp þremur herbergjum í húsinu á Árbæjarsafni. Listamennirnir Erla Silfá Þorgrímsdóttir, Hrafnhildur Helgadóttir, Sæmundur þór Helgason og Styrmir Örn Guðmunsson vinna verk sín inn í marglaga sögu hússins, arkitektúr þess og safnafræðilegt samhengi.

Þá hafa verið valin verk eftir listamennina Önnu Hrund Másdóttur, Örnu Óttarsdóttur, Arnar Ásgeirsson og Leif Ými Eyjólfsson sem kallast á við þá sögulegu sviðsetningu sem sett hefur verið upp í húsinu og verða verk þeirra í samtali við önnur herbergi hússins.

Sýningunni fylgir ríkulega myndskreytt útgáfa þar sem starfsemi gallerí Suðurgötu 7 er tekin saman. Þar er meðal annars að finna ritgerð eftir Heiðar Kára Rannversson þar sem galleríið og starfsemi þess er skoðað í alþjóðlegu samhengi listamannarekinna rýma, en einnig í samhengi hugmynda í samtímalist áttunda og níunda áratugarins á Íslandi. Ritstjórn skipa ásamt Heiðari Kára og Unnari Erni, Gunnhildur Hauksdóttir og Bergsveinn Þórsson, verkefnastjóri hjá Minjasafni Reykjavíkur. Unnar Örn er sýningarstjóri sýningarinnar fyrir hönd Nýlistasafnisins. Arnar Freyr Guðmundsson hefur umsjón með hönnun og upsetningu útgáfunnar sem tekur mið af útgáfunni Svart á Hvítu.

No responses yet

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

  • Nýlistasafnið
  • Marshallhúsið
  • Grandagarður 20
  • 101 Reykjavík
  • Ísland

Opnunartímar

  • mið til sun 12 – 18
  • lokað á mánudögum og þriðjudögum
  • Almenningssamgöngur

    • Strætó: 14
    • Stöð: Grandi

Hafðu samband

  • S: +354 551 4350
  • N: nylo(at)gamla.nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map