Archive for desember, 2017

Jólabúðingur á vetrarsólstöðum

des 18 2017 Published by under Uncategorized

Fimmtudaginn 21. desember, á vetrarsólstöðum, verður lifandi dagskrá í safninu milli kl. 17:00 – 21:00.

Dagskráin hefst klukkan 17:00 með Matarlausa matarmarkaðinum & Radio Sandwich.

Klukkan 20:00 munu Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Fríða Ísberg, Hallgrímur Helgason, Jón Örn Loðmfjörð, Kristín Ómarsdóttir og Kött Grá Pjé, lesa úr nýútkomnum ljóðabókum sínum.

Matarlausi Matarmarkaðurinn er sölubás sem selur einungis óæt myndlistarverk sem fjalla um mat. Básinn verður aðeins opinn þetta eina kvöld frá kl. 17-21.

Í básnum verða verk eftir Ívar Glóa Gunnarsson, Geirþrúði Einarsdóttur og Gylfa Freeland Sigurðsson, Báru Bjarnardóttur og Kristínu Helgu Ríkharðsdóttur. Kaupendum býðst sérstök innpökkunarþjónusta að hætti Matarlausa Matarmarkaðsins. Þetta er því einstakt tækifæri til þess að ljúka við jólainnkaupin!

Hlustunarpartí RADIO SANDWICH, kl.17-20. Radio Sandwich er nýr miðill sem er sérgerður fyrir tónverk myndlistarmanna. Í þessari útsendingu sem ber nafnið “RADIO SANDWICH: EP 1” verða frumflutt fimm ný tónverk eftir þá myndlistarmenn sem taka þátt í Matarlausa Matarmarkaðnum. Þau koma fram undir nöfnunum 900 stig, Mr. Glowie, Queen B og Bossy.

Skipuleggjendur Matarlausa Matarmarkaðsins & Radio Sandwich eru Kristín Helga Ríkharðsdóttir og Bára Bjarnadóttir.

Klukkan 20:00 hefst ljóðaupplestur þar sem sex rithöfundar og skáld stíga á svið sem öll hafa gefið út ljóðabækur á árinu.
Bergþóra Snæbjörnsdóttir – Flórída
Fríða Ísberg – Slitförin
Hallgrímur Helgason – Fiskur af himni
Jón Örn Loðmfjörð – Sprungur
Kristín Ómarsdóttir – Kóngulær í sýningargluggum
Kött Grá Pjé – Hin svarta útsending

Dagskráin fer fram milli 17-21 og það er ókeypis inn.

Ef þú hyggist kaupa óæt myndlistarverk eða ljóðabækur mælum við með að koma með reiðufé.

No responses yet

Opið fyrir umsóknir

des 05 2017 Published by under Uncategorized

Stjórn Nýlistasafnsins kallar eftir tillögum að verkum á samsýningu sem haldin verður í tilefni af 40 ára afmæli safnsins. Sýningin opnar í byrjun júní 2018 og stendur yfir sumarið.

Alls verða 5 – 6 tillögur frá jafnmörgum listamönnum valdar úr innsendum umsóknum, sóst er eftir tillögum að verkum sem fjalla um málefni samtíma okkar og atburði líðandi stundar. Litið verður sérstaklega til umsókna eftir listamenn sem hafa verið starfandi í fimm ár eða skemur. MA nemendum og útskriftarnemum frá BA árið 2018, er einnig velkomið að sækja um.

Nýlistasafnið veitir völdum tillögum styrk upp í efniskostnað verka og sýningarþóknun, aðstoðar við uppsetningu verka, sjá um hönnun og prentun sýningarskrár, ásamt kynningu og opnunarhóf.

Sýningin mun samanstanda af völdum tillögum að verkum ásamt ákveðnum listaverkum úr safneign Nýlistasafnsins sem spanna ólík tímabil og áratugi.

Nýlistasafnið eða Nýló er listamannarekið sýningarrými og safn, vettvangur uppákoma, umræðna og gjörninga. Nýló hefur lengi verið miðstöð nýrra strauma og tilrauna í íslenskri myndlist og hafa margar sýningar í Nýló markað tímamót í íslenskri listasögu.

Ár hvert stendur Nýló fyrir öflugri sýningadagskrá auk þess að safna og varðveita listaverk og heimildir sem tengjast frumkvöðlastarfi innan íslenskrar myndlistar.

Umsóknarfrestur er til miðnættis, mánudaginn 15. janúar 2018.

Umsóknir skulu innihalda eftirfarandi gögn:

1.Tillögu/lýsingu að nýju verki, á íslensku eða ensku. Tillagan skal einnig innihalda upplýsingar um tæknileg- og uppsetningarleg atriði, hámark 600 orð.
2. Áætlaðan kostnað við framkvæmd listaverks (hámark 1 bls).
3. Ferilskrá (hámark 2 bls).
4. Myndir af fyrri verkum og /eða skissur (hámark 6). Allar myndir skulu vera vel merktar upplýsingum um verkið: titil, ár, miðill og stærð.

Sýningartillaga, ferilskrá, kostnaðaráætlun og listi/upplýsingar um myndir skulu vera hjálögð sem PDF- skjal í tölvupósti. Ljósmyndum af verkum má skila í sér PDF skjali.

Skjalið skal ekki vera stærra en 10 MB. Umsóknum í formi word skjala eða í tölvupósti án viðhengja verða ekki teknar til greina.

Fyrir tímatengd verk, myndbands eða hljóðverk skal setja inn hlekk sem leiðir beint inn á rétta slóð tengda VIMEO, Youtube o.s.frv. Vinsamlegast sendið ekki myndbönd eða hljóðverk beint í tölvupósti; aðeins hlekki.
Umsóknir og allt efni sem þeim viðkemur, utan tímatengdra verka, skal vera sent í einum tölvupósti.

Vinsamlegast sendið allar umsóknir á applications(at)gamla.nylo.is merktar Nýló í 40 ár, fyrir miðnætti á mánudagskvöldi, þann 15. janúar.

Stjórn Nýlistasafnsins áskilur sér rétt til þess að velja og hafna umsóknum án allra vandkvæða eða frekari útskýringa. Umsóknir sem berast eftir auglýstan umsóknarfrest verða ekki teknar til athugunar.

No responses yet

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

  • Nýlistasafnið
  • Marshallhúsið
  • Grandagarður 20
  • 101 Reykjavík
  • Ísland

Opnunartímar

  • mið til sun 12 – 18
  • lokað á mánudögum og þriðjudögum
  • Almenningssamgöngur

    • Strætó: 14
    • Stöð: Grandi

Hafðu samband

  • S: +354 551 4350
  • N: nylo(at)gamla.nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map