Archive for september, 2016

Reasons to Perform: Opinn Kassi

sep 15 2016 Published by under Uncategorized

Opinn Kassi
Alla föstudaga frá 10. september til 10 desember.

Ákall til listamanna, fulltrúa Nýló, safnara og vina!

Nýlistasafnið í samstarfi við Maju Bekan og Gunndísi Ýr Finnbogadóttur í tengslum við sýningu þeirra Reasons to Perform: Always, Always, Always: Look for the Answer býður listamönnum, fulltrúum Nýló, söfnurum og vinum að opna kassa gjörningararkífsins, gefa í þá og bæta við efni og upplýsingum.

Fyrir sýninguna Reasons to Perform sem stendur yfir í Lifandi Safneign til 11. desember hafa listamennirnir Gunndís Ýr Finnbogadóttir og Maja Bekan samtvinnað eða unnið útfrá heimildum um gjörninga sem varðveittir eru í Nýlistasafninu. Verkin eru staðbundin (i.e. site specific) textaverk, skúlptúrar og gjörningar.

Sýningin á uppruna sinn í sífelldri rannsókn listamannana og athugun þeirra á tíma, aðlögun, höfundarétt og framleiðni.

Mínútur af mælingum, truflun, takti, hreyfingu verða kynntar inn í gjörningaarkíf Nýló og fluttar af starfsfólki og gestum á opnunatíma sýningarinnar.

Á meðan á sýningunni stendur tekur safnið á móti nýju efni í gjörningaarkífið, frumheimildir og frekari upplýsingar um þá gjörninga sem nú þegar eru varðveittir í safninu, auk þess sem tekið er á móti nýjum gjörningum. Þessi vinna mun eiga sér stað hvern föstudag á meðan á sýningunni stendur á milli klukkan 13:00 – 16:00, eða eftir samkomulagi við safneignarfulltrúa Becky Forsythe gegnum archive(at)gamla.nylo.is. Tillögur að og söfnun nýrra gjörninga og heimilda í arkífið verður skoðað í hverju tilfelli fyrir sig, tekið verður tillit til þess efnis sem nú þegar er varðveitt í arkífinu.

Gjörningararkífið á rætur sínar að rekja til ársins 2008, en þá hóf Nýlistasafnið skipulega að skrásetja heimildir um gjörninga og flokka efni tengt gjörningum listamanna. Áður fyrr hafði safnið safnað og varðveitt heimildir um 20 gjörninga frá árunum 1978 – 1981.

Smám saman hafa allskyns heimildir tengdar gjörningum verið bætt við arkífið. Söfnun þessa efnis á sér stað í samtali við listamanninn, með það markmið að rannsaka verk hans/hennar og feril. Einblínt er á staðreyndir sem styðja varðveislu og sérstöðu hvers einstaka gjörnings.

Nýlistasafnið hefur verið einn helsti vettvangur gjörningalistar hér á landi.Markmið arkífsins er að varðveita heimildir um gjörninga og gjörningatengd verk þar sem það.

No responses yet

Nýlistasafninu er ánafnað stórum hluta efnis úr vinnustofu Ólafs Lárussonar myndlistarmanns (1951 – 2014)

sep 10 2016 Published by under Uncategorized

Fjölskylda Ólafs Lárussonar hefur gefið Nýlistasafninu mikið magn efnis úr vinnustofu Ólafs sem spannar tvo áratugi, frá og í kringum 1970 – 1990.

Þ.m.t hluti af persónulegu bókasafni hans, filmusafni, negatífur og upptökur af gjörningum, listaverk, ljósmyndir, skyggnur, sýningarskrár, boðskort, listrænar rannsóknir og tilraunir listamannsins, VHS upptökur, skissur, tillögur að listaverkum í formi teikninga, ljósmynda og verk á hugmyndastigi eða sem aldrei urðu að veruleika.

Nýlistasafnið mun flytja sýningarrými sitt í Marshall húsið út á Granda í byrjun næsta árs ásamt Kling og Bang gallerí og Ólafi Elíassyni. Sýningin, sem jafnframt mun opna nýtt rými safnsins við höfnina, verður yfirlitssýning á verkum Ólafs ásamt heimildum um gjörninga hans sem og öðru efni sem ekki komu fyrir sjónir almennings á meðan hann lifði. Sýningin mun einnig innihalda verk úr safneign Listasafns Íslands og Listasafni Reykjavíkur ásamt verkum í einkaeign, frá vinum og vandamönnum Ólafs sem og söfnurum.

Þorgerður Ólafsdóttir safnstjóri Nýlistasafnsins og Becky Forsythe safneignarfulltrúi safnsins, eru sýningastjórar sýningarinnar sem ber yfirskriftina Rolling Line. Titill sýningarinnar er fenginn úr ljósmyndaverki eftir Ólaf frá árinu 1975 þar sem hann sést fara í kollhnís úti í náttúrunni og vísar í að lína endi alltaf í hring. Titillinn á afar vel við inntak sýningarinnar sem leitast við að varpa ljósi á ákveðið tímabil í vinnu listamannsins; frá því að hann stundaði nám í Myndlista og handíðaskóla Íslands og allt til ársins 1981 þegar hann fór að snúa sér frá ljósmyndinni sem aðal miðli í listsköpun sinni.

Ólafur Lárusson fæddist árið 1951 og ólst upp í Austur – Meðalholtum og Hlíðunum. Hann stundaði nám við Myndlista og handíðaskóla Íslands frá 1971 – 1974 og hélt út til Haarlem í Hollandi í kjölfarið þar sem hann útskrifaðist frá Atalier ’63 árið 1976. Ólafur var afar afkastamikill listamaður á 8. – 9. áratugnum og átti stóran þátt í að móta áherslur innan íslenskrar listasenu. Hann var meðal síðustu listamanna sem teknir voru inn í gallerí SÚM og einn af stofnaðilum Nýlistasafnsins og var fyrsti vísir af safninu geymdur á vinnustofu hans í Mjölnisholti áður en stjórn safnsins fékk aðstöðu á Vatnsstíg 3b árið 1980.

Gjöf úr vinnustofu Ólafs markar ákveðin tímamót fyrir Nýló en er einnig mikilvæg viðbót við listasöguna. Þetta er í fyrsta sinn sem Nýlistasafnið tekur við heimildum sem varpa ljósi á ævi og starf listamanns með viðlíka hætti. Með gjöfinni fundust einnig upptökur frá gjörningi Ólafs, Regnbogi – sem hann sýndi í gallerí SÚM árið 1978 en hafa verið týndar í mörg ár. Á upptökunni má sjá listamanninn skalla og brjóta hangandi glerplötur sem málaðar hafa verið með öllum litum regnbogans, með höfðinu – svo að glerið sveiflast til og frá.

Gjöfin eflir vinnu Nýló við að safna, varðveita og skrá gjörningalist og undirstrikar mikilvægi þess efnis sem ekki er sýnt, heldur verður eftir á vinnustofu listamannsins; hugmyndavinna, ferli og þróun verka og er heimild um áherslur, strauma og stefnur á ákveðnum tíma.

Ólafur lést 4. desember 2014. Hann hefði fagnað 65 ára afmæli sínu í dag þann 10. september og vill því Nýlistasafnið minnast Óla og hans frábæra framlags til íslenskrar listasenu – til hamingju með daginn kæri Óli, fjölskylda og vinir!

No responses yet

Núllið verður heimkynni Pönksafns Íslands

sep 09 2016 Published by under Uncategorized

Nýlistasafnið vill óska nýjum leigjendum að Núllinu, Bankastræti 0, þeim Guðfinni Sölva Karlssyni, Dr. Gunna, Axel Hallkeli Jóhannessyni og Þórdísi Claessen sem saman standa utan um Pönksafn Íslands, til hamingju með nýju aðstöðuna.

Hópurinn er nú að vinna að fyrstu sýningunni sem að kemur til með að opna á Airwaves hátíðinni 2016. Sýningunni er ætlað að rekja sögu pönksins á Íslandi og fanga tíðaranda tímabilsins með munum og ljósmyndum.

Að eigin sögn þykir fjórmenningunum rýmið síður en svo of lítið og mjög vel til þess fallið að hýsa safnið sem þeir segja vera tileinkun á pönkinu sem í þeirra huga hafi undirbúið jarðveginn fyrir velgengni íslenskrar tónlistar í dag.

Nýlistasafnið tók við lyklunum að kvenna-salerninu í Bankastræti 0 í árslok 2014 og hóf þá að umbreyta aðstöðunni í sýningarrými í samvinnu með arkitektastofunni kurtogpi. Helgi Sigurðsson arkitekt hannaði salernin sem opnuðu formlega á alþingis-hátíðinni 17. júní árið 1930. Starfsemin neðanjarðar minnkaði verulega um síðustu aldamót og var þeim að endingu lokað árið 2006.

Reykjavíkurborg hafði haft mikinn áhuga á að endurvekja starfsemi í rýminu neðanjarðar, nema af öðru meiði. Borgin hafði samband við stjórn Nýlistasafnsins og bauð safninu að leigja rýmið án gjalds í eitt ár og setja upp sýningar neðanjarðar og þar sem glæða jarðhúsin aftur lífi.

Salernin eru friðuð af Minjavernd og var því mikil áskorun fyrir arkitektana Ásmund Hrafn Sturluson og Steinþór Kára Kárason að vinna rýmið að nýju og aðlaga það að nýju hlutverki.

Fyrsta sýningin Nýlistasafnsins í Núllinu opnaði áður en endanlegum endurbótum lauk, á Sequences VII myndlistarhátíðinni í apríl 2015. Viðgerðum á rýminu lauk seinna um sumarið og tók þá við áframhaldandi sýningardagskrá safnsins.

Sýningar og viðburðir safnsins neðanjarðar voru;

Being Boring / Sýningastjórar Gareth Bell-Jones og Gemma LloydJohn Baldessari, Phil Coy, Lucy Clout, Emma Hart, William Hunt, Sam Porritt og Peter Wächtler

prik/ strik – Kristín Rúnarsdóttir

Nothing Really Matters (except me) Simon Buckley

Væntanlegt / Brynjar Helgason, Ívar Glói Gunnarsson, Logi Leó Gunnarsson og Una Björg Magnúsdóttir.

The apparent impossibility of zero / Ragnar Helgi Ólafsson / Sequences VII

Aðrir viðburður neðanjarðar voru til að mynda opnun á Dulkápunni á Hönnunarmars sem að stóð fyrir fjölbreyttri viðburðadagskrá samhliða sýningunni.

No responses yet

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

  • Nýlistasafnið
  • Marshallhúsið
  • Grandagarður 20
  • 101 Reykjavík
  • Ísland

Opnunartímar

  • mið til sun 12 – 18
  • lokað á mánudögum og þriðjudögum
  • Almenningssamgöngur

    • Strætó: 14
    • Stöð: Grandi

Hafðu samband

  • S: +354 551 4350
  • N: nylo(at)gamla.nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map