Archive for mars, 2020

Nýlistasafnið er lokað tímabundið

mar 23 2020 Published by under Uncategorized

Kæru gestir,

Skjótt skipast veður í lofti. Í ljósi herts samkomubanns mun Nýlistasafnið vera lokað frá og með morgundeginum, þriðjudegi 24. mars. Þetta er gert til að takmarka útbreiðslu kórónuveirufaraldsins og samkvæmt fyrirmælum yfirvalda verður safnið lokað til og með 13. apríl. Þó, eins og reynslan sýnir, gæti það breyst og við munum láta ykkur vita hér á heimasíðunni hvenær við opnum dyrnar að nýju.

Á meðan safnið er lokað vinna starfsmenn Nýlistasafnsins að sínum verkefnum heima við. Það verður því enginn á skrifstofu safnsins, og þar með enginn til að svara í símann. Allar fyrirspurnir og ábendingar skal senda á nylo(hjá)gamla.nylo.is og við munum sjá til þess að þeim verður svarað hratt og örugglega.

Þó lítið líf verði á skrifstofunni komandi vikur er nóg að gera hjá okkur við skráningu verka, kynningarmál og undirbúning komandi sýninga og annarra framtíðarverkefna. Gaman er að greina frá því að við hlutum meðal annars styrk úr safnasjóð fyrir nýrri heimasíðu, sem vonandi lítur dagsins ljós á þessu ári.

Þar sem við getum ekki tekið á móti gestum í safnið vinnum við nú í góðu samstarfi við Kling & Bang að því að koma núverandi sýningu safnsins, Erling Klingenberg eftir Erling T. V. Klingenberg, nær ykkur sem heima sitjið.

Einnig ætlum við að draga eldri sýningar safnsins fram í sviðsljósið, gullmola úr safneigninni og annað sem okkur dettur í hug. Lestrarfélag Nýló mun halda áfram að hvetja til heimalesturs og á næstu vikum kynnum við spennandi samstarfsverkefni við nemendur úr Listaháskólanum og Háskóla Íslands. Fylgist með hér á heimasíðu safnsins, á facebook síðu okkar og instagram.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur að nýju á bjartari og covid-fríum tímum!

Starfssemi Nýlistasafnsins á tímum COVID-19 heimsfaraldurs

mar 17 2020 Published by under Uncategorized

Vinsamlegast athugið: Samkvæmt hertu samkomubanni er Nýlistasafnið tímabundið lokað

Kæru gestir,

Nýlistasafnið er opið eftir sem áður á meðan samkomubann er í gildi, en öllum viðburðum á vegum safnsins hefur verið frestað. Við fylgjumst náið með gangi mála, gætum vel að hreinlæti og snertifletir eru sprittaðir regluleg. Fylgst verður með fjölda gesta í sýningarsal, þess gætt vel að gestir haldi hæfilegri fjarlægð sín á milli og hafi aðgang að handlaugum, sápu og spritti.


Opnunartímar safnsins haldast að mestu óbreyttir, að undanskildum sérstökum kvöldopnunum á fimmtudagskvöldum, sem falla niður næstu fjórar vikurnar. Safnið er þar með opið alla þriðjudaga-sunnudaga milli 12.00 og 18.00.

Þó viðburðum hafi verið frestað ætlum við að gera okkar besta til að færa listina nær almenningi, og minnum við til dæmis á heimalestur Lestrarfélags Nýlistasafnsins, sem lesa má um hér: Lestrarfélag Nýló: Heimalestur


Að lokum bendum við á Viðbragðsáætlun Nýlistasafnsins vegna heimsfaraldursins sem nú geisar, en hún nær til gesta og starfsmanna safnsins:
Viðbragðsáætlun Nýlistasafnsins vegna COVID-19 heimsfaraldurs


No responses yet

Lestrarfélag Nýló: Heimalestur

mar 16 2020 Published by under Uncategorized

Lestrarfélag Nýlistasafnsins

Heimalestur

Lesefni: Understanding Debt as the Basis of Social Life úr bókinni The Making of the Indebtet Man –An Essay on the Neoliberal Condition eftir Maurizio Lazzarato

Patrik Killoran valdi lesefni

Kæru Lestrarfélagar, 
Slagorð síðasta Feneyjartvíærings, „May You Live in Interesting Times“ hefur svo sannarlega gengið eftir. Covid-19 hefur dagskrárvaldið þessa dagana og allir leggja sitt á vogarskálarnar til að hefta útbreiðslu veirunnar, en um leið finna leiðir til að gera lífið ánægjulegra.


Lestrarfélag Nýlistasafnsins hefur því ákveðið að bjóða upp á heimalestur í þessari viku, og hvetjum við fulltrúa safnsins til að ræða um textann á facebook hópnum okkar (Fulltrúar Nýlistasafnsins). Bandaríski myndlistamaðurinn Patrik Killoran, sem hefur verið gestalistamaður við Listháskólann, valdi lesefnið og til stóð að hann myndi stýra umræðum en hann er nú, af skiljanlegum ástæðum, snúinn aftur til heimalands síns. Patrik valdi kafla úr bókinni The Making of the Indebtet Man eftir ítalska félagsfræðinginn og heimspekinginn Maurizio Lazzarato. 

Lesefnið má nálgast með því að smella hér eða skrifa okkur tölvupóst á nylo(hjá)nylo.is.


Facebook hópur fyrir fulltrúa safnsins ber hinn gegnsæja titil Fulltrúar Nýlistasafnsins, og ættu flestir félagar sem eru á facebook að hafa aðgang að hópnum. Hægt er að biðja um aðgang með því að skrifa okkur tölvupóst. 

Góðar lestrarstundir heima!


No responses yet

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

  • Nýlistasafnið
  • Marshallhúsið
  • Grandagarður 20
  • 101 Reykjavík
  • Ísland

Opnunartímar

  • mið til sun 12 – 18
  • lokað á mánudögum og þriðjudögum
  • Almenningssamgöngur

    • Strætó: 14
    • Stöð: Grandi

Hafðu samband

  • S: +354 551 4350
  • N: nylo(at)gamla.nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar


map