Author Archive

Ljósabasar Nýló opnar 26. nóvember

nóv 26 2020 Published by under Uncategorized

Ljósabasar 2020
26. Nóvember – 20. Desember 2020


www.ljosabasar.gamla.nylo.is
Opnar á netinu fimmtudaginn langa, 26. nóvember 2020


Opið geymslu- og örsýningarrými í Nýlistasafninu, Marshallhúsinu

Verið hjartanlega velkomin á Ljósabasar Nýlistasafnsins 2020

Ljúkum þessu ólgandi ári saman með hvelli! Ljósabasar 2020 fer fram dagana 26.nóvember til 20. desember. Að þessu sinni mun basarinn eiga sér vettvang á netinu, á síðunni ljosabasar.gamla.nylo.is sem verður gerð opinber á fimmtudeginum langa 26. nóvember kl. 17:00. Þar verður hægt að skoða verkin, kynna sér listamennina sem taka þátt í basarnum og kaupa samtímalist eftir yfir 40 myndlistarmenn, sem öll eru félagar safnsins. Við bjóðum einnig gesti velkomna í Nýlistasafnið, Marshallhúsinu, þar á Ljósabasarinn sér annan samastað með opinni geymslu og örsýningu í safnbúðinni. Þar má líta verk Ljósabasars eigin augum á hefðbundnum opnunartímum safnsins.

Verkin eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg en þau tengjast öll ljósinu í orðsins víðasta skilningi: Ljós gerir heiminn sýnilegan og leiðir okkur þannig áfram á ýmsa áfangastaði, rótgróna og raunverulega, háfleyga og ljóðræna, uppspunna og afbakaða. Eftir þetta ár ójafnvægis og umróta er gott að láta listina lýsa upp myrkasta tíma ársins, og jafnvel skreyta eða teygja svolítið á veruleikanum.

Ljósabasar Nýló er fjáröflunarviðburður til stuðnings Nýlistasafninu. Nýlistasafnið, eða Nýló eins og safnið er nefnt í daglegu tali, er listamannarekið safn og sýningarrými. Markmið Nýló er að varðveita og sýna samtímalist og vera vettvangur fyrir tilraunir og alþjóðlega umræðu um myndlist. Nýló hefur verið einn helsti vettvangur fyrir samtímalist á Íslandi og á einstakt safn verka eftir íslenska og alþjóðlega listamenn frá sjötta áratugnum til dagsins í dag.

Áfram Nýló, tilraunagleðin og listin!

No responses yet

Opið fyrir umsóknir: Vinnustofudvöl í Frakklandi

okt 22 2020 Published by under Uncategorized

Opið fyrir umsóknir: Vinnustofudvöl í Clermont-Ferrand  í Frakklandi í apríl 2021  Frestur til 30. október 2020 Kæru fulltrúar, Frestur til að sækja um í vinnustofudvöl í Clermont Ferrand í Frakklandi hefur verið framlengdur um viku. Vinnustofudvölin er afrakstur samstarfs milli Nýló og Artiste en residence í Clermont Ferrand, með góðum stuðningi frá Franska sendiráðinu á Íslandi og Alliance Francaise í Reykjavík. Fulltrúar Nýló sem hafa borgað ársgjald 2020 er frjálst að sækja um vinnustofudvöl í apríl 2021 í Artiste en Residence í Clermont Ferrand (http://www.artistesenresidence.fr), inniflalið er gistiaðstaða, aðgangur að vinnustofu og 1.000€ styrk fyrir uppihaldi. Listamaðurinn verður að koma sér á staðinn á eign vegum en Nýló aðstoðar við að sækja um ferðastyrki ef þess er þörf. Hér er á ferðinni einstakt tækifæri og við hvetjum sem flest ykkar til að sækja um.

Dvölin er eins konar „skipti-prógram“, Nýló sendir fulltrúa til Frakklands í mánuð í senn, og á móti tökum við á móti listamanni frá Frakklandi í mánaðardvöl hjá SÍM. Í september í ár dvaldi  franskur listamaður, Naomi Maury, í vinnustofu SÍM á Seljavegi. Naomi kom til Íslands í byrjun mánaðarins og byrjaði  eftir sóttkví að kynnast íslenskri myndlistarsenu, hitti listamenn, sýningarstjóra og vann að eigin verkum. Hún fór  aftur til Frakklands í lok september. 

Nánar um umsóknarferlið:

Umsóknin á að vera skrifuð á ensku. (Ath að ekki er nauðsynlegt að vera frönskumælandi, til sækja um eða dvelja í resídensíunni.)  Með umsókninni skal fylgja ferilskrá ásamt stuttri yfirlýsingu listamanns (e. artist statement, hámark 500 orð). 

Að auki skulu fylgja með tíu til 20 myndir af fyrri verkum. Fyrir tímatengd verk, myndbands eða hljóðverk skal setja inn hlekk sem leiðir beint á Vimeo, Youtube eða álíka veitur.

Vinsamlegast sendið ekki myndbönd eða hljóðverk beint í tölvupósti, aðeins hlekki. Senda skal umsóknir og allt efni sem þeim viðkemur, utan tímatengdra verka, í einu samhangandi PDF skjali. Skjölin mega ekki vera stærri en 10 MB.

Umsóknir sem ekki fara eftir umbeðnum kröfum og leiðbeiningum eða í vantar einhver gögn verða ekki teknar til greina. Inntökunefnd á vegum Artiste en Residence í Clermont-Ferrand velur úr umsóknum.

Umsóknir berist fyrir miðnætti, 30. október 2020 á netfangið nylo(hjá)gamla.nylo.is merktar „Clermont-Ferrand_2021“. Ekki verður tekið við útprentuðum umsóknum. Fyrirspurnir berist á sama netfang. Einnig er velkomið að senda fyrirspurnir á Bruno Silva hjá Artites En Residence: bruno.silva(hjá)artistesenresidence.fr

No responses yet

Hjartsláttur – leiðsögn listamanns

sep 09 2020 Published by under Uncategorized

HJARTSLÁTTUR

yfirlitssýning Ástu Ólafsdóttur

Leiðsögn listamanns 

13. september kl. 14

Ásta Ólafsdóttur leiðir gesti um yfirlitssýningu sína í Nýlistasafninu sunnudaginn 13. september kl. 14. Það er ókeypis aðgangur og tekið vel á móti öllum. Leiðsögnin verður á íslensku. 

Sýningin Hjartsláttur leiðir saman verk frá rúmlega fjörutíu ára myndlistarferli Ástu, frá námsárum hennar til dagsins í dag. Öll endurspegla þau á sinn hátt óþreytandi eltingarleik Ástu við fjölbreyttar víddir veruleikans. Þá einkum það sem við getum ekki snert og eigum til að líta framhjá í dagsins önn og amstri. Þögnina, tómið, hljóð og tilfinningar, en líka vald, jafnvægi og aðra menningarheima. Aflgjafa sem skilja eftir sig ummerki. Þá verður augljós sú staðreynd að manneskjan er hluti af stærri heild og náttúran er aldrei langt undan. Hún er stöðug og síbreytileg í senn, traustur ferðafélagi. Eins og listin. 

Ljósmynd með frétt: Vigfús Birgisson

No responses yet

Opið fyrir umsóknir Open call دعوة†مفتوحة Otwarte zaproszenie

sep 08 2020 Published by under Uncategorized

Opið fyrir umsóknir um haustsýningu Nýlistasafnsins 2021

Open call
دعوة†مفتوحة
Otwarte zaproszenie

Undanfarin tvö ár hefur Nýlistasafnið leitað til félaga safnsins og kallað eftir tillögum að haustsýningu í safninu. Markmiðið með því ákalli hefur verið að víkka út sjóndeildarhring stjórnar og kynna fjölbreytileika íslenskrar myndlistarsenu fyrir almenningi. Í kjölfar þeirrar ólgu sem hófst með sterku og þörfu ákalli svartra og blandaðra minnihlutahópa í Bandaríkjunum sem nú hefur ýtt við flestum kimum heimsins hefur runnið upp fyrir stjórn safnsins að við höfum ekki náð fyllilega að endurspegla þá fjölbreyttu grósku sem einkennir listir og mannlíf hérlendis. Sem fyrsta skref í tilraun til að ýta undir fjölbreytni og þátttöku allra hefur stjórn Nýló ákveðið að leita víðar í þessu árlega ákalli um sýningartillögur:

Nú er opið fyrir umsóknir um haustsýningu Nýlistasafnsins fyrir árið 2021, og þessu ákalli er sérstaklega beint að einstaklingum og hópum hvers raddir hafa hingað til ekki fengið nægan hljómgrunn. Við hvetjum fólk af ólíkum uppruna og með ólíkan bakgrunn, hvort sem viðkomandi er aðili að Nýló eða ekki, að senda inn tillögu. Við leitum sérstaklega til hinsegin samfélagsins,íslendinga með erlendan uppruna og blandaða íslendinga, aðfluttra íslendinga og annarra sem finna sig á jaðrinum að deila með okkur sínum sjónarhornum. Til þess að tryggja fjölbreytileika og vinna gegn dulinni hlutdrægni hefur stjórn ákveðið að bjóða fleirum að borði í valnefnd.

Nýlistasafnið á að vera afl breytinga, bæði vegna stöðu Nýló sem viðurkennt safn og opinber stofnun, og í ljósi sögu safnsins. Megintilgangurinn með stofnun Nýlistasafnsins árið 1978 var fyrst og fremst að opna augu listheimsins og almennings fyrir nýjungum og breyttum viðfangsefnum myndlistarmanna í samtímanum og er eitt af markmiðum safnsins að þjóna sem vettvangur gagnrýnnar hugsunar og umræðu.

Með þessu opna umsóknarferli viljum við berjast gegn hvers slags mismunun sem á sér stað í samfélagi okkar í dag, kynþáttamisrétti og jaðarsetningu minnihlutahópa.

Við viljum beita okkur fyrir virkri þátttöku allra, berjast gegn þöggun og „við og hinir“ hugsunarhætti, bjóða frásagnir og viðfangsefni sem hingað til hafa verið hliðarsettar fremst á sögusviðið og gæta þess að við festumst ekki í orðræðu sem einfaldar sýn okkar á samfélagið. Með þessu ákalli viljum við stuðla að fjölradda, litskrúðugri og opinni listasenu.

Praktísk atriði

Bæði einka- og samsýningar koma til greina.

Með umsókninni skal fylgja ferilskrá ásamt stuttri lýsingu á inntaki og efnistökum sem viðkomandi hyggst vinna út frá á fyrirhugaðri sýningu (hámark 250 orð). Tillagan skal einnig innihalda upplýsingar um tæknileg atriði og uppsetningu. Að auki skulu fylgja með fimm myndir af fyrri verkum. Fyrir tímatengd verk, myndbands eða hljóðverk skal setja inn hlekk sem leiðir beint á Vimeo, Youtube eða álíka veitur. Vinsamlegast sendið ekki myndbönd eða hljóðverk beint í tölvupósti; aðeins hlekki. Senda skal umsóknir og allt efni sem þeim viðkemur, utan tímatengdra verka, í einu samhangandi PDF skjali. Skjölin mega ekki vera stærri en 10 MB.

Umsóknir sem ekki fara eftir umbeðnum kröfum og leiðbeiningum eða í vantar einhver gögn verða ekki teknar til greina.

Umsóknir berist fyrir miðnætti, 04. Október 2020 á netfangið nylo@gamla.nylo.is merktar „umsókn_2021“. Ekki verður tekið við útprentuðum umsóknum. Fyrirspurnir berist á sama netfang.

Í hnotskurn:

Umsóknarfresti lýkur: 04.10.20, kl 23:59

Svar við umsókn berst ekki seinna en tveimur vikum síðar.

Sýningartímabil: Haust 2021 (ágúst-september)

Smellið til að hlaða niður tilkynningum á ensku, pólsku og arabísku.

No responses yet

Fimmtudagurinn langi í ágúst

ágú 23 2020 Published by under Uncategorized

Fimmtudagurinn langi, 27. ágúst!


Opið til 22 og enginn aðgangseyrir á fjölda sýningarstaði í miðborginni

Á fimmtudaginn, 27. ágúst er langur fimmtudagur! Þá bjóða fjöldi safna og sýningarstaða í miðbænum upp á lengdan opnunartíma. Þá er tilvalið að bregða sér í snertilausan göngutúr, skoða fjölbreyttar listasýningar og heimsækja listamannarekin rými, gallerí og söfn. Enginn aðgangseyrir. 

Fimmtudagurinn langi 27. ágúst litast af fjölbreyttum, líflegum og snertilausum viðburðum. Þá stendur Listasafn Reykjavíkur fyrir leiðsögn um sýningu Gilbert & George í hafnarhúsinu, og um sýninguna Allt sem sýnist – Raunveruleiki á striga, á Kjarvalsstöðum. Vegna fjöldatakmarkana er skráning í báðar leiðsagnir nauðsynleg, og fer fram í gegnum heimasíðu safnsinsNúllið Gallerý opnar nýja sýningu Aniku L. Baldursdóttur, og í Gallerí Port verður lokahóf fyrir sýningu Ella Egilssonar, Efnisþættir. Samband Íslenskra Myndlistarmanna opnar sýningu á verkum þeirra listamanna sem hafa dvalið og starfað í gestavinnustofum SÍM í ágúst og Listasafn Íslands endurtekur leikinn frá seinasta langa fimmtudegi og leiðir áhugasama í listagöngu um Skólavörðuholtið. Í gluggagalleríinu Wind & Weather Window Gallery má skoða sýningu Freyju Eilíf, Millihlustargátt. Nóg verður um að vera í Marshallhúsinu: Í Kling og Bang verður performatíft listamannaspjall og leiðsögn með Anaira Omann, í Nýlistasafninu fylgja þeir Hallgrímur Helgason og Anton Helgi Jónsson gestum í ljóðaleiðsögn um sýningarsalinn og Studio Ólafs Elíassonar verður opið. 

Verið hjartanlega velkomin! 

No responses yet

Yfirlitssýning Ástu Ólafsdóttur opnar í Nýlistasafninu

ágú 08 2020 Published by under Uncategorized

Verið hjartanlega velkomin á yfirlitssýningu Ástu Ólafsdóttur í Nýlistasafninu, Marshallhúsinu. Sýningin er opið frá og með laugardeginum 22. ágúst og verður opin á hefðbundnum opnunartímum safnsins, miðvikudaga til sunnudaga frá klukkan 12–18. 
 

Sýningin Hjartsláttur leiðir saman verk frá rúmlega fjörutíu ára myndlistarferli Ástu, frá námsárum hennar til dagsins í dag. Öll endurspegla þau á sinn hátt óþreytandi eltingarleik Ástu við fjölbreyttar víddir veruleikans. Þá einkum það sem við getum ekki snert og eigum til að líta framhjá í dagsins önn og amstri. Þögnina, tómið, hljóð og tilfinningar, en líka vald, jafnvægi og aðra menningarheima. Aflgjafa sem skilja eftir sig ummerki. Þá verður augljós sú staðreynd að manneskjan er hluti af stærri heild og náttúran er aldrei langt undan. Hún er stöðug og síbreytileg í senn, traustur ferðafélagi. Eins og listin. 
 

Ásta Ólafsdóttir er fædd í Reykjavík 1948. Hún stundaði myndlistarnám í Nýlistadeild við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Jan Van Eyck Akademíuna í Hollandi. Listferill Ástu spannar rúmlega 40 ár af sýningarhaldi og  Ásta er ein af virkustu myndlistarmönnum sinnar kynslóðar. Hún er tilraunagjörn í listsköpun sinni, bæði hvað varðar efnisval og myndmál. Hún hefur unnið í fjölbreytta miðla, þar á meðal vídeó og hljóð ásamt því að hún hefur verið virk í textagerð og bókaútgáfu. Ásta hefur miðlað þekkingu sinni með kennslu á öllum kennslustigum og verk hennar og ferill hafa haldist þétt í hendur við vaxandi umsvif kvenna í íslensku myndlistarlífi. 


Það er sérstaklega ánægjulegt að yfirlitssýning Ástu skuli eiga sér stað og stund í Nýlistasafninu, safninu sem hún tók þátt í að stofna á sínum tíma. Allar götur síðan hefur hún tekið virkan þátt í starfssemi safnsins. Hér hélt hún sína fyrstu einkasýningu árið 1986 og í dag er hún heiðursfélagi í Nýló. 


Við hlökkum til að taka á móti ykkur! 

No responses yet

Fimmtudagurinn langi í júlí

júl 27 2020 Published by under Uncategorized

Fimmtudagurinn langi, 30. Júlí!  

Opið til 22 og enginn aðgangseyrir hjá fjölda sýningarstaða í miðborginni

Í sumar býður fjöldi safna og sýningarstaða í miðbænum upp á lengdan opnunartíma síðasta fimmtudagskvöld í júní, júlí og ágúst. Þá er tilvalið að bregða sér í göngutúr og skoða fjölbreyttar listasýningar, kíkja við á vinnustofum listamanna, heimsækja listamannarekin rými, gallerí og söfn – og upplifa líflega myndlistarsenu miðborgarinnar! Enginn aðgangseyrir og boðið verður upp á ýmsar óvæntar uppákomur.  

Dagskráin 30. júlí er fjölbreytt og lífleg. Þá verður opið til 22:00 á fjórtán sýningarstöðum í miðbænum. Vert er að taka fram að í Hverfisgallerí er yfirstandandi sýning, Houndshills, Houndshollows eftir Guðmund Thoroddsen opin til 21:00 og kvöldið í Kling & Bang í Marshallhúsinu verður líka með ólíku sniði. Þar opnar kl. 20:30 með gjörningi Arnar Alexanders Ámundasonar. Á vinnustofu Shoplifter (Hrafnhildar Arnardóttur) verður hægt að upplifa verk hennar Chromo Sapiens í sýndarveruleika, og hjá Sambandi Íslenskra myndlistarmanna verður opnun á samsýningu þeirra listamanna sem hafa dvalið og starfað í gestavinnustofum SÍM í júlí. 

Núllið gallerý opnar einnig nýja sýningu eftir Sölku Rósinkranz og Tótu Kolbeinsdóttur og Listasafn Íslands býður upp á listgöngu um sunnanvert Skólavörðuholt. Í Nýlistasafninu verður útgáfuhóf í tilefni af nýju bókverki eftir Fritz Hendrik IV og óformlegt listamannaspjall við nokkra af þeim listamönnum sem eiga verk á sýningunni Ný aðföng. Í Listasafni Reykjavíkur verður pop-up bar í Hafnarhúsinu og happy hour tilboð á Klambrar Bistro, Kjarvalstöðum. Í Gallerí Port verður yfirstandandi sýning listhópsins Kaktus opin, í i8 má sjá sýningu á verkum Ólafs Elíassonar, Handan mannlegs tíma. Í gluggagalleríinu Wind & Weather er sýningin Millihlustargátt eftir Freyju Eilíf og í Stúdíó Ólafs Elíassonar í Marshallhúsinu eru verk eftir listamanninn til sýnis. Í listamannarekna sýningarrýminu Harbinger standa listamennirnir Anna Hrund Másdóttir, Ragnheiður Káradóttir og Steinunn Marta Önnudóttir fyrir opinni tilraunastofu. 

Dagskrána í heild sinni er að finna á facebook viðburði fimmtudagsins langa. 
 

Verið hjartanlega velkomin! 

No responses yet

Erling Klingenberg – Lokahóf

jún 23 2020 Published by under Uncategorized

Erling Klingenberg

Lokahóf og listamannaspjall
 

Laugardaginn 27. júní kl. 16:00–19:00

Listamannaspjall kl. 16:00–17:00

Yfirlitssýning Erlings T. V. Klingenberg í Nýlistasafninu og Kling & Bang lýkur um helgina. Af því tilefni efnum við til lokahófs með listamannaspjalli á laugardaginn, 27. júní milli kl. 16:00–19:00 í Marshallhúsinu. Fyrsta klukkutímann munu Erling sjálfur og sýningarstjóri sýningarinnar, Daníel Björnsson, spjalla um sýninguna og taka við spurningum. Léttar veigar verða í boði.

Verið öll hjartanlega velkomin! 

Mynd með frétt: Erling T.V. Klingenberg, Asslick 25 cents, 1999. Ljósmynd: Vigfús Birgisson

No responses yet

Fimmtudagurinn langi

jún 21 2020 Published by under Uncategorized

Síðasti fimmtudagur í hverjum sumarmánuði er fimmtudagurinn langi! 
 

Í sumar taka fjöldi safna og sýningarstaða í miðbænum sig saman og bjóða upp á á lengdan opnunartíma síðasta fimmtudagskvöld í júní, júlí og ágúst. Þar á meðal er Marshallhúsið og Nýlistasafnið. Þá er tilvalið að bregða sér af bæ og skoða fjölbreyttar listasýningar, kíkja við á vinnustofum listamanna, heimsækja listamannarekin rými, gallerí og söfn – og upplifa líflega myndlistarsenu miðborgarinnar! Enginn aðgangseyrir og boðið verður upp á ýmsar óvæntar uppákomur. Að auki verða sérstök tilboð á ýmsum kaffi- og veitingahúsum þessi fimmtudagskvöld. Dagskrána er að finna hér að neðan. Í Nýlistasafninu og Kling & Bang verður yfirlitssýning Erlings T. V. Klingenberg opin, en henni lýkur núna um helgina. Í Studio Ólafur Elíasson eru til sýnis verk eftir Ólaf Elíasson. Verið öll velkomin!

No responses yet

Sequences leitar að sýningarstjóra/sýningarteymi fyrir Sequences X

jún 11 2020 Published by under Uncategorized

Stjórn Sequences real time art festival leitar að sýningarstjóra, sem mun vera í forsvari fyrir næstu útgáfu hátíðarinnar, Sequences X sem haldin verður í október 2021. 

Sequences real time art festival er listamannarekin myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík, með sérstaka áherslu á verk í rauntíma og tímatengda miðla. Frá upphafi hefur verið lagt upp með að á hátíðinni ríki andi frumkvæðis, tilrauna og áræðni. Stofnaðilar og ábyrgðaraðilar Sequences eru Kling & Bang (st. 2003), Nýlistasafnið (st. 1978) og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Sequences er rekin án hagnaðarsjónarmiða. 

Við leitum að sýningarstjóra eða sýningarteymi sem getur glætt hátíðina nýju ljósi og um leið litið til sögu hátíðarinnar sem listamannarekið frumkvæði með áherslu á tímatengda miðla.

Sýningarstjórinn/teymið mun hafa yfirumsjón með öllu sem kemur að skipulagningu hátíðarinnar, allt frá hugmyndaramma og þema Sequences X og vali á listamönnum til fjáröflunar, framkvæmdar og lokaskýrslugerðar. Stjórn Sequences mun vera sýningarstjóra/teyminu innan handar á meðan á ferlinu stendur. 

Verkefni sem sýningarstjóri/teymið mun vinna að eru meðal annars:

  • Hugmyndavinna, þema, val á listamönnum og dagskrá hátíðar
  • Fjáröflun og fjármálastjórnun
  • Samskipti við listamenn og aðra þátttakendur
  • Ritstjórn sýningarskrár
  • Skipulag við uppsetningu og niðurtöku sýninga og viðburða
  • Samskipti við styrktaraðila og aðra samstarfsaðila
  • Miðlun hátíðar og samskipti við fjölmiðla
  • Niðurtaka og lokaskýrslur

Við leitum að aðila/um með sterka listræna sýn og reynslu af skipulagi menningarviðburða. Sequences X mun fara fram í október 2021, en nánari dagsetningar verða ákveðnar í samstarfi við þann sýningarstjóra eða það teymi sem verður fyrir valinu. Hátíðin mun spanna 10 daga (2 helgar, 5 virka daga) en sýningar hátíðarinnar geta varað lengur, í samráði við þá sýningarstaði sem verða fyrir valinu.

Fastir sýningarstaðir hátíðarinnar eru Kling & Bang og Nýlistasafnið, og hefð er fyrir því að hátíðin fari einnig fram í öðrum listamannareknum rýmum í Reykjavík. 

Umsóknarferli

Umsókn á að innihalda greinagóða lýsing á hugmynd (1bls), ferilskrá umsækjanda ásamt tillögu að tíma- og fjárhagsáætlun. Skjalið má ekki vera meira en 2 GB. 

Umsóknir sendist sem eitt sameinað pdf skjal á sequences@sequences.is fyrir miðnætti 3. ágúst 2020. Allar fyrirspurnir sendist á sama netfang og öllum spurningum verður svarað eins fljótt og auðið er. 

Stjórn Sequences fer yfir innsendar umsóknir, og öllum umsóknum verður svarað eigi síður en 3. september 2020. Fyllsta trúnaðar verður gætt og stjórn Sequences áskilur sér rétt til að leita til annarra en umsækjenda. 

Nánari upplýsingar um Sequences real time art festival má finna á heimasíðu hátíðarinnar, www. sequences.is

No responses yet

Katie Paterson sýnir í Nýlistasafninu á Listahátíð í Reykjavík 2020

apr 03 2020 Published by under Uncategorized

Nýlistasafnið tekur þátt í Listahátíð í Reykjavík 2020 með sýningu Katie Paterson, The Earth Has Many Keys. Við erum afskaplega stolt af þessu verkefni og spennt að sýna verk Katie hér á landi, en það má með sanni segja að verkin færi alheiminn nær okkur.

Ef kringumstæður leyfa stefnum við á að opna sýninguna í ágúst. Við mætum þessum óvissutímum með þolinmæði og ró og erum þakklát samstarfinu við Katie og Listahátíð – þar sem listin fær svo sannarlega að blómstra á eigin forsendum.

Smellið hér til að skrá ykkur á póstlista sýningarinnar. Þegar búið er að ákveða dagsetningar verða þær tilkynntar þar.

Verk Katie Paterson eru mikilfengleg, bæði að umfangi og hugmyndafræðilega. Hún leitast við að koma hinu ómælanlega í kunnuglegt form, svo sem klukkur, bréf, kerti og ljósaperur. Verk hennar fanga víðáttur himingeimsins og mannshugans, þau hafa yfir sér ljóðrænt ívaf hversdagsleikans, eru full leikgleði, ögra og hrífa.

Mörg verka listakonunnar fjalla beint eða óbeint um áhrif mannsins á náttúruna og himinhvolfið, um loftslagsbreytingar og stuttan líftíma mannkyns og jarðar.

Þau eru áminning til okkar og áskorun um að bæta umgengni okkar við náttúruna.

Samstarf Katie Paterson við vísindamenn er einstaklega frjótt og gefur henni færi á að gera hið huglæga áþreifanlegt. Með sanni má segja að verk hennar færi alheiminn nær okkur.

Katie Paterson er rísandi stjarna í alþjóðlega listheiminum en hún býr og starfar í Fife og Edinborg í Skotlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem hún sýnir verk sín hér á landi en tengsl hennar við Ísland eru töluverð.

Mynd með færslu: Katie Paterson, Light bulb to Simulate Moonlight, 2008 Ljósmynd: © John McKenzie 2011

Starfssemi Nýlistasafnsins á tímum COVID-19 heimsfaraldurs

mar 17 2020 Published by under Uncategorized

Vinsamlegast athugið: Samkvæmt hertu samkomubanni er Nýlistasafnið tímabundið lokað

Kæru gestir,

Nýlistasafnið er opið eftir sem áður á meðan samkomubann er í gildi, en öllum viðburðum á vegum safnsins hefur verið frestað. Við fylgjumst náið með gangi mála, gætum vel að hreinlæti og snertifletir eru sprittaðir regluleg. Fylgst verður með fjölda gesta í sýningarsal, þess gætt vel að gestir haldi hæfilegri fjarlægð sín á milli og hafi aðgang að handlaugum, sápu og spritti.


Opnunartímar safnsins haldast að mestu óbreyttir, að undanskildum sérstökum kvöldopnunum á fimmtudagskvöldum, sem falla niður næstu fjórar vikurnar. Safnið er þar með opið alla þriðjudaga-sunnudaga milli 12.00 og 18.00.

Þó viðburðum hafi verið frestað ætlum við að gera okkar besta til að færa listina nær almenningi, og minnum við til dæmis á heimalestur Lestrarfélags Nýlistasafnsins, sem lesa má um hér: Lestrarfélag Nýló: Heimalestur


Að lokum bendum við á Viðbragðsáætlun Nýlistasafnsins vegna heimsfaraldursins sem nú geisar, en hún nær til gesta og starfsmanna safnsins:
Viðbragðsáætlun Nýlistasafnsins vegna COVID-19 heimsfaraldurs


No responses yet

Lestrarfélag Nýló: Heimalestur

mar 16 2020 Published by under Uncategorized

Lestrarfélag Nýlistasafnsins

Heimalestur

Lesefni: Understanding Debt as the Basis of Social Life úr bókinni The Making of the Indebtet Man –An Essay on the Neoliberal Condition eftir Maurizio Lazzarato

Patrik Killoran valdi lesefni

Kæru Lestrarfélagar, 
Slagorð síðasta Feneyjartvíærings, „May You Live in Interesting Times“ hefur svo sannarlega gengið eftir. Covid-19 hefur dagskrárvaldið þessa dagana og allir leggja sitt á vogarskálarnar til að hefta útbreiðslu veirunnar, en um leið finna leiðir til að gera lífið ánægjulegra.


Lestrarfélag Nýlistasafnsins hefur því ákveðið að bjóða upp á heimalestur í þessari viku, og hvetjum við fulltrúa safnsins til að ræða um textann á facebook hópnum okkar (Fulltrúar Nýlistasafnsins). Bandaríski myndlistamaðurinn Patrik Killoran, sem hefur verið gestalistamaður við Listháskólann, valdi lesefnið og til stóð að hann myndi stýra umræðum en hann er nú, af skiljanlegum ástæðum, snúinn aftur til heimalands síns. Patrik valdi kafla úr bókinni The Making of the Indebtet Man eftir ítalska félagsfræðinginn og heimspekinginn Maurizio Lazzarato. 

Lesefnið má nálgast með því að smella hér eða skrifa okkur tölvupóst á nylo(hjá)nylo.is.


Facebook hópur fyrir fulltrúa safnsins ber hinn gegnsæja titil Fulltrúar Nýlistasafnsins, og ættu flestir félagar sem eru á facebook að hafa aðgang að hópnum. Hægt er að biðja um aðgang með því að skrifa okkur tölvupóst. 

Góðar lestrarstundir heima!


No responses yet

Lestrarfélag Nýló: Karl Ómarsson

feb 04 2020 Published by under Uncategorized

Lestrarfélag Nýlistasafnsins

Fimmtudaginn 6. febrúar 2020 kl. 20:30

Lesefni: The History of Things úr bókinni The Shape of Time: Remarks on the History of Things eftir George Kubler

Umsjón: Karl Ómarsson

Varða: Anna Líndal


Kæru lestrarfélagar,
Lestrarfélag Nýló heldur áfram á nýju ári og fyrsta lestrarkvöld ársins verður haldið 6. febrúar næstkomandi kl. 20:30. Að þessu sinni mun Karl Ómarsson leiða umræður, en hann hefur valið kaflann The History of Things úr bókinni The Shape of Time: Remarks on the History of Things eftir George Kubler.

Lesefnið má nálgast með því að skrifa tölvupóst á nylo(hjá)gamla.nylo.is. Hafi einhver áhuga á að lesa alla bókina er hún einnig aðgengileg í gegnum tölvupóst.

Lestrarfélag Nýlistasafnsins er samræðuvettvangur kollega sem kemur saman hálfsmánaðaralega í húsakynnum safnsins í Marshallhúsinu. Hverju sinni er ákveðið lesefni valið af umsjónaraðila rætt á breiðum grunni.

Við hlökkum til að sjá ykkur 6. febrúar í Marshallhúsinu!

No responses yet

Safnanótt 2020 í Marshallhúsinu

jan 31 2020 Published by under Uncategorized

Safnanótt í Marshallhúsinu
Nýlistasafnið / Kling & Bang / Studio Ólafur Elíasson
7. febrúar 2020 kl. 18.00–21.00

Leiðsagnir og viðburðir í öllum rýmum

Nýlistasafnið, Kling & Bang og Stúdíó Ólafur Elíasson býður gesti velkomna í Marshallhúsið á Safnanótt 2020!

Valin verk úr gjörningaarkífi Nýlistasafnins verða dregin fram dagsljósið, í Kling og Bang verður þátttökugjörningur eftir Illona Valkonen endurtekinn og boðið verður upp á leiðsagnir um allt Marshallhúsið með viðkomu í Nýlistasafninu, Kling & Bang og Stúdíó Ólafur Elíasson. Þá munu gestir fá innsýn í yfirstandandi sýningar, sögu hússins og hlutverk þess í dag. Að vanda er ókeypis aðgangur í öll sýningarrýmin.


Viðburðir og sýningar á Safnanótt í Marshallhúsinu

Kl. 18:00 og 20:00
Leiðsagnir um Marshallhúsið og sýningar Nýló, Kling & Bang og Stúdíó Ólafs Elíassonar

Nýlistasafnið
Valin vídeó úr gjörningaarkífinu
Nokkur uppáhalds verk (http://www.gamla.nylo.is/events/nokkur-uppahalds-verk/)

Kling & Bang
Undir lok hverrar leiðsagnar verður þátttökugjörningur eftir Illona Valkonen endurtekinn, þar sem gestum er boðið að eiga nána stund með blómum.
Elämän vesi / Lífsins vatn / Water of Life (http://this.is/klingogbang)

Stúdíó Ólafur Elíasson
Leiðsögn um verk á vinnustofu listamannsins


Á Safnanótt 2020 verður opið til kl. 21:00 í öllum sýningarrýmum Marshallhússins, veitingastaðurinn La Primavera er opinn til kl. 22:30 og gestir eru hvattir til að nýta sér ferðir Safnanæturstrætós, sem ekur frítt milli allra safnanna á meðan á Safnanótt stendur.

No responses yet

Lokað milli sýninga

jan 07 2020 Published by under Uncategorized

Nýlistasafnið er lokað milli sýninga. Við opnum aftur föstudaginn 10. janúar með fyrstu sýningu ársins 2020. Sú sýning ber titilinn Nokkur uppáhalds verk og spannar verk úr safneign Nýló.

No responses yet

Hátíðarkveðja. Nýlistasafnið er lokað milli 23. desember 2019 og 4. janúar 2020

des 29 2019 Published by under Uncategorized

Nýlistasafnið óskar þér og þínum gleðilegra jóla, friðar og farsældar á komandi ári.

Við þökkum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og tökum spennt á móti ykkur á nýju ári.

Nýlistasafnið verður lokað milli jóla og nýárs, frá og með Þorláksmessu. Við opnum að nýju 4. janúar 2020 með afmælis- og nýárspartýi Nýló, sem verður auglýst fljótlega.

Með hátíðarkveðju,
Stjórn og starfsfólk Nýlistasafnsins.

No responses yet

Lokum í dag, þriðjudag 10. desember kl. 14 vegna veðurs

des 10 2019 Published by under Uncategorized

Vegna veðurs lokar Nýlistasafnið kl. 14 í dag, þriðjudaginn 10. desember kl. 14.

No responses yet

Ljósabasar Nýló

nóv 18 2019 Published by under Uncategorized

Fjáröflun fyrir Nýlistasafnið
Listaverkabasar og viðburðir fyrir alla fjölskylduna
1.–22. desember 2019 í Marshallhúsinu

Í desember taka fulltrúar Nýlistasafnsins höndum saman og efna til veglegs listaverkabasars í Nýlistasafninu þar sem listaverk yfir 60 listamanna verða til sölu. Verkin eru jafn fjölbreytileg og þau eru mörg en eiga það öll sameiginlegt að tengjast ljósi á skapandi hátt: Verk um ljós, verk sem lýsa, ljósainnsetningar, neonljós, kertaljós, ljósmyndir, huglæg ljós og áfram má endalaust telja.

Markmiðið er að lýsa upp skammdegið. Ljósabasar Nýló er einstakt tækifæri til að gefa list í jólagjöf og fjárfesta í samtímalist á hagstæðu verði.

Basarinn fer fram í húsakynnum Nýlistasafnsins í Marshallhúsinu dagana 1.–22 desember. Fjölbreyttir viðburðir fyrir fólk á öllum aldri verða haldnir á meðan á basarnum stendur. Tilkynnt verður um viðburðadagskrá og þá listamenn sem taka þátt í basarnum á næstu dögum – Fylgist með hér á viðburðasíðunni, heimasíðu Nýlistasafnsins og á samfélagsmiðlum.

Við hlökkum til að sjá ykkur.

Áfram Nýló, tilraunagleðin og listin!

No responses yet

Til Fulltrúa Nýlistasafnsins: Opið fyrir umsóknir um sýningu í október/nóvember 2020

ágú 09 2019 Published by under Uncategorized

Til fulltrúa Nýlistasafnsins:

Nýlistasafnið kallar eftir tillögum um sýningu í október/nóvember 2020

Bæði einka- og samsýningar koma til greina.

Með umsókninni skal fylgja ferilskrá ásamt stuttri lýsingu á inntaki og efnistökum sem viðkomandi hyggst vinna út frá á fyrirhugaðri sýningu (hámark 250 orð). Tillagan skal einnig innihalda upplýsingar um tæknileg atriði og uppsetningu. Að auki skulu fylgja með fimm myndir af fyrri verkum. Fyrir tímatengd verk, myndbands eða hljóðverk skal setja inn hlekk sem leiðir beint á Vimeo, Youtube eða álíka veitur. Vinsamlegast sendið ekki myndbönd eða hljóðverk beint í tölvupósti; aðeins hlekki.

Senda skal umsóknir og allt efni sem þeim viðkemur, utan tímatengdra verka, í einu samhangandi PDF skjali. Skjölin mega ekki vera stærri en 10 MB.

Umsóknir sem ekki fara eftir umbeðnum kröfum og leiðbeiningum eða í vantar einhver gögn verða ekki teknar til greina.

Stjórn Nýló velur úr umsóknum.

Umsóknir berist fyrir miðnætti, 1. september 2019 á netfangið nylo@gamla.nylo.is merktar „umsókn_2020“. Ekki verður tekið við útprentuðum umsóknum.

Fyrirspurnir berist á sama netfang.

Einungis umsóknir fulltrúa Nýlistasafnsins, sem greitt hafa árgjaldið 2019, verða teknar til greina. Hægt er að fá upplýsingar um aðild að Nýlistasafninu með því að senda tölvupóst á nylo@gamla.nylo.is.

Praktískar upplýsingar:

Umsóknarfresti lýkur: 01.09.19, kl 23:59

Svar við umsókn berst ekki seinna en 20.09.19

Sýningartímabil: Seinni partur október til lok nóvembers 2020

Mynd: Karl Ómarsson

No responses yet

Opnun …Og hvað svo?

júl 30 2019 Published by under Uncategorized

Verið velkomin á sýningaropnun … og hvað svo? fimmtudaginn 13. júní 2019 kl. 18:00.

Og hvað svo? Þessi orð fela í sér samtíning andstæðra tilfinninga. Undrun, uppgjöf, ótta og vanmátt. Tilhlökkun, gleði, spennu og von. Forvitni og afskiptaleysi. Þessir ólíku þræðir mætast allir í óvissunni.

Óvissunni um það sem hefði getað orðið, varð eða varð ekki og það sem koma skal.

Óvissu sem rífur okkur upp úr núinu og inn í annan tíma, á nýja áfangastaði og inn í aðrar mögulegar atburðarásir. Og hvað svo?

Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru:

Andreas Brunner, Eva Ísleifs, Freyja Eilíf, Fritz Hendrik IV, Huginn Þór Arason, Libia Castro & Ólafur Ólafsson, Rebecca Erin Moran, Rúna Þorkelsdóttir, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Þorvaldur Þorsteinsson, Þórður Ben Sveinsson

Sýningarstjóri: Sunna Ástþórsdóttir

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóð og Safnaráði

No responses yet

… og hvað svo? listamannaspjall með Libiu Castro og Ólafi Ólafssyni

júl 18 2019 Published by under Uncategorized

Verið öll hjartanlega velkomin á listamannaspjall með Libiu Castro og Ólafi Ólafssyni í Nýlistasafninu fimmtudaginn 1. ágúst kl. 20:00. Tvíeykið mun meðal annars ræða verk sín á samsýningunni … og hvað svo? sem stendur nú yfir í safninu. Heitt á könnunni og ókeypis aðgangur!

Spjallað verður á ensku.

Á sýningunni … og hvað svo? mætast verk 12 listamanna sem hvert fyrir sig og í samtali sín á milli ávarpa hið yfirvofandi og rannsaka listina sem áhrifavald. Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru:

Andreas Brunner, Eva Ísleifs, Freyja Eilíf, Fritz Hendrik IV, Huginn Þór Arason, Libia Castro & Ólafur Ólafsson, Rebecca Erin Moran, Rúna Þorkelsdóttir, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Þorvaldur Þorsteinsson, Þórður Ben Sveinsson

No responses yet

… og hvað svo? leiðsögn á ensku

júl 10 2019 Published by under Uncategorized

Velkomin á leiðsögn á ensku um sýninguna … og hvað svo? fimmtudaginn 18. júlí kl. 16:00.

No responses yet

… og hvað svo? leiðsögn sýningarstjóra

jún 30 2019 Published by under Uncategorized

Nýlistasafnið býður ykkur hjartanlega velkomin á leiðsögn um sýninguna … og hvað svo? Í húsakynnum safnsins í Marshallhúsinu, sunnudaginn 7. Júlí kl. 15.

Sunna Ástþórsdóttir, sýningarstjóri sýningarinnar, leiðir gesti um sýninguna. Leiðsögnin er ókeypis og opin öllum.

Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru: Andreas Brunner, Eva Ísleifs, Freyja Eilíf, Fritz Hendrik IV, Huginn Þór Arason, Libia Castro & Ólafur Ólafsson, Rebecca Erin Moran, Rúna Þorkelsdóttir, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Þorvaldur Þorsteinsson, Þórður Ben Sveinsson

Hvert fyrir sig og í samtali sín á milli, ávarpa verk þeirra hið yfirvofandi og rannsaka listina sem áhrifavald. Hvað segir hún okkur um framtíðina? Getur listin breytt því sem á eftir að gerast? Jafnvel mörgum árum eftir að verkið var skapað? Hjálpar listin okkur að kljást við raunveruleikann eða hverfa á vit annarra heima? Hvert þá? Hvernig getur list verið pólitísk? Með því að taka afstöðu? Eða hjálpa okkur að flýja hversdaginn? Sýna okkur eitthvað sem jafnvel getur aldrei orðið?

Sýningin stendur yfir til 4. ágúst 2019.

No responses yet

… og hvað svo? listamannaspjall með Rebeccu Erin Moran

jún 30 2019 Published by under Uncategorized

Miðvikudaginn 26. júní spjallar Rebecca Erin Moran um sýninguna … og hvað svo? og verk hennar þar. Spjallið fer fram í Nýlistasafninu í Marshalllhúsinu og verður sýningin opin á meðan á spjallinu stendur. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir!

Spjallið verður á ensku.

No responses yet

Lokahelgi sýninga og listamannaspjall með Bjarka Bragasyni

mar 02 2019 Published by under Uncategorized

Síðasta sýningahelgin

Listamannaspjall með Bjarka Bragasyni

03.03.19 kl. 15:00

Verið hjartanlega velkomin á listamannaspjall með Bjarka Bragasyni undir leiðsögn Sunnu Ástþórsdóttur sunnudaginn 3. mars kl. 15:00. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir. Spjallið fer fram á lokadegi sýningar hans ÞRJÚÞÚSUND OG NÍU ÁR en þessa sömu helgi lýkur einnig sýningu Kolbeins Huga, Cryptopia One: A Beginning Is A Very Delicate Time. Safnið er opið laugardag og sunnudag frá 12-18.

Einkasýningar Kolbeins Huga og Bjarka Bragasonar eru báðar staðsettar í sýningarsal Nýlistasafnsins í Marshallhúsinu og bergmála sín á milli. Báðar rannsaka þær samband okkar við umhverfið, fólk og hluti í fortíð, nútíð og framtíð en listamennirnir nálgast viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum og aðferðum.

Með sýningunni ÞRJÚÞÚSUND OG NÍU ÁR glímir Bjarki Bragason við áhrif nærumhverfisins á hann sjálfan, og aðra, á nánast umhverfisfræðilegan hátt meðan Kolbeinn Hugi nýtir sér framúrstefnu og vísindaskáldskap til að fletta dulunni af mögulegri framtíð með Cryptopia One: A Beginning Is A Very Delicate Time.

Þannig hvíslast verk beggja listamanna á um mismunandi tíma og leiðir til að tengja við og reyna að skilja þann heim sem umlykur okkur.

Í gegnum tíðina hafa leiðir þeirra Kolbeins Huga og Bjarka Bragasonar títt legið saman en þetta er í fyrsta sinn sem þeir opna samhliða sýningar í sama rýminu.

(Mynd: Vigfús Birgisson)

No responses yet

Eygló Harðardóttir er myndlistarmaður ársins 2019!

feb 22 2019 Published by under Uncategorized

Eygló Harðardóttir var valin myndlistarmaður ársins fyrir sýningu sína í Nýlistasafninu, Annað Rými, á Íslensku Myndlistarverðlaununum sem haldin voru við hátíðlega athöfn í gær, fimmtudaginn 21. febrúar. Leifur Ýmir Eyjólfsson hlaut hvatningarverðlaun ársins fyrir sýninguna Handrit í Listasafni Reykjavíkur.

Nýlistasafnið óskar báðum listamönnum innilega til hamingju og þakkar um leið Eygló kærlega fyrir samstarfið á liðnu ári! Við erum afskaplega stolt af sýningunni Annað Rými en á Listasafni Reykjavíkur má um þessar mundir líta augum verkið Gler Skúlptúr sem sett hefur verið upp í Hafnarhúsinu af tilefni verðlaunanna. Verkið eignaðist stað í safneign Listasafns Reykjavíkur meðan á sýningunni stóð í Nýló.

Í umsögn dómnefndar segir að sýningin Annað rými hafi borið titil sinn með réttu. „Með verkum sem í senn voru fínleg og stórkarlaleg, unnin í viðkvæman efnivið, opnaði listakonan fyrir gáttir sem áhorfandinn gat smeygt sér inn fyrir og aukið skynjun sína og næmi á kostnað hinnar vanabundnu rökhyggju.“ Segir meðal annars. Dómefnd skipaði Aðalsteinn Ingólfsson, Jóhann Ludwig Torfason, Sigurður Guðjónsson, Margrét Kristín Sigurðardóttir og Hanna Styrmisdóttir.

Mynd með frétt: Vigfús Birgisson

No responses yet

Eygló Harðardóttir tilnefnd til íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir sýninguna Annað Rými í Nýlistasafninu

feb 15 2019 Published by under Uncategorized

Eygló Harðardóttir er tilnefnd til íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir sýninguna „Annað Rými“ sem haldin var í Nýlistasafninu í september og október á síðasta ári.

Í umsögn segir meðal annars: „Með verkum sem í senn voru fínleg og stórkarlaleg, unnin í viðkvæman efnivið, opnaði listakonan fyrir gáttir sem áhorfandinn gat smeygt sér inn fyrir og aukið skynjun sína og næmi á kostnað hinnar vanabundnu rökhyggju.“

Við óskum Eygló Harðardóttur innilega til hamingju með tilnefninguna! Við erum stolt af okkar gjöfula og lærdómsríka samstarfi með Eygló að sýningunni Annað Rými.

No responses yet

Safnanótt í Nýló 2019: Leiðsögn um ÞJÚÞÚSUND OG NÍU ÁR

feb 06 2019 Published by under Uncategorized

Safnanótt í Nýlistasafninu 2019

08.02.2019 kl. 20:00

Berglind Jóna Hlynsdóttir leiðir gesti um sýningu Bjarka Bragasonar, ÞRJÚÞÚSUND OG NÍU ÁR

Velkomin á safnanótt í Nýlistasafninu föstudaginn 8. febrúar klukkan 20:00. Berglind Jóna Hlynsdóttir verður með leiðsögn um yfirstandandi sýningu Bjarka Bragasonar, ÞRJÚÞÚSUND OG NÍU ÁR. Berglind hefur fylgst með ferlinu síðan vinna við sýninguna hófst en hún mun veita innsýn í verkin og hugarheim listamannsins. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Í Nýlistasafninu standa nú yfir tvær sýningar, sýning Bjarka Bragasonar ÞRJÚÞÚSUND OG NÍU ÁR og sýning Kolbeins Huga Cryptopia One: A Beginning Is A Very Delicate Time. Báðar sýningarnar beina sjónum okkar að náttúrunni og nærumhverfinu og rannsaka samband mannsins við umhverfi sitt, fólk og hluti í fortíð og nútíð. Listamennirnir beita þó afar ólíkum aðferðum og nálgast viðfangsefnið út frá mismunandi sjónarhornum og aðferðum. Báðar sýningar verða opnar í tilefni kvöldsins en safnið lokar klukkan 22:00.

No responses yet

Lokað milli sýninga

des 06 2018 Published by under Uncategorized

Nýlistasafnið er lokað milli sýninga. Við opnum að nýju föstudaginn 14. desember með Rúmelsi #3: Ekkisens.

No responses yet

Karíókí bar Laumulistasamsteypunnar

nóv 29 2018 Published by under Uncategorized

Laumulistasamsteypan tekur sér pásu frá kaffipásunni og opnar einnar kvöldstundar karíókí bar í Nýlistasafninu. Fimmtudaginn 29. nóvember kl. 19:00.

Hinn víðfrægi og víðförli kareoke bar Laumulistasamsteypunnar opnar dyr sínar í þriðja sinn nú á fimmtudaginn. Að þessu sinni verður barinn staðsettur í Nýlistasafninu en hann hefur áður skotið upp kollinum í gamla beituskúrnum í Hrísey og í At7 í Amsterdam.

Ballöður

Ástar / hatursbréf

Plötusnúðasett í Boiler Room stíl, eftir Sjoerd van Leeuwen

Kaffikokteilar

Sjóðheit skemmtiatriði

No responses yet

Rúmelsi #2: Kaffipása í boði Laumulistasamsteypunnar

nóv 23 2018 Published by under Uncategorized

Rúmelsi # 2:

KAFFIPÁSA

Laumulistasamsteypan

27.11.2018-02.12.2018

Verið hjartanlega velkomin á Rúmelsi #2 í Nýlistasafninu: Kaffipása í boði Laumulistasamsteypunnar. Á opnunartímum safnsins býðst gestum og gangandi að staldra við, í lengri eða styttri tíma, og taka sér pásu ásamt meðlimum samsteypunnar. Kaffipása Laumulistasamsteypunnar stendur yfir dagana 27. nóvember til 2. desember.

Þetta er alveg að bresta á, við erum að fara að gera eitthvað stórkostlegt bara eftir smááá stund, einn kaffibolla í viðbót. Og kannski tíu dropa til. Vætum kverkarnar og búum okkur undir þetta allt saman. Þetta stóra mikla sem gerist beint eftir pásuna. Þetta verður nefnilega alveg klikkað sko – á eftir – þegar allt fer á fullt. En það er ekki alveg strax því fyrst ætlum við að hella uppá könnuna. Blása úr nös. Ótrúleg uppfinning þetta svart-bauna-seyði, en maður verður að passa sig að horfa ekki of lengi ofaní þennan dökka vökva eða hann horfir til baka.

Fólk kunni ekki að taka pásur fyrr en kaffi kom til sögunnar og það hafði eitthvað afkastavænt að gera í pásunum. Loksins gat það sest niður undir því yfirskini að drekka kaffi, því það að setjast niður eitt og sér væri hneisa – athafnaleysi og vitleysa. Svo var til fólk sem drakk ekki kaffi svo það fann upp á sígarettunni í staðinn svo það gæti líka tekið pásur. Það er nefnilega um að gera að slappa aldrei of mikið af, eða sko aldrei vera alveg án verkefnis.

Laumulistasamsteypan býður þátttakendum uppá tækifæri til þess að breyta sínum skapandi vendipunkti um stund, marinerast með öðrum heilum og beina allri sinni orku og athygli að því verkefni sem liggur fyrir hverju sinni. Samsteypan getur virkað sem listrænt vítamín fyrir þátttakendur sem síast inn smám saman og látið á sér kræla á óvæntum sviðum, jafnvel mánuðum eftir að samvistinni lýkur.
Laumulistasamsteypan samanstendur af hópi listamanna sem dvelja árlega og tímabundið saman í Hrísey, í Eyjafirði. Hún er residensía, matarklúbbur, furðuverk, hátíð, gengi, óvarpaður raunveruleikaþáttur, leiðangur, kommúna, útvarpsstöð og stuðningshópur en kannski fyrst og fremst sumarbúðir fyrir friðlausa listamenn.

Ásgerður Birna Björnsdóttir og Helena Aðalsteinsdóttir stofnuðu Laumulistasamsteypuna árið 2014 en hún er síbreytileg amaba þar sem lögun hennar ræðst af þörfum hópsins og skipuleggjenda. Stundum teygir samsteypan anga sína út fyrir landsteinana en á öðrum tímum skreppur hún aftur saman í kjarnastærð.

Meðlimir Laumulistasamsteypunnar 2014-2018: Ástríður Jónsdóttir, Sjuul Joosen, Sara Björg Bjarnadóttir, Arna María Kristjánsdóttir, Helena Aðalsteinsdóttir, Susan van Veen, Ásgerður Birna Björnsdóttir, Borghildur Tumadóttir, Gunnar Gunnsteinsson, Catoo Kemperman, Timna Tomisa, Helene Johanne Christensen, Simon Becks, Gunnar Örn Egilsson, Harriet Lansdown, Bára Bjarnadóttir, Bergur Thomas Anderson, Simon Brinck, Minne Kersten, Logi Leó Gunnarsson, Una Björg Magnúsdóttir, Natasha Taylor, Sjoerd van Leuuwen, Kristján Guðjónsson, Hrefna Guðmundsdóttir, Anton Logi Ólafsson, Sophie Lingg, Annahita Asgari, Eline Harmse og Thom van Hoek.

No responses yet

Til Fulltrúa Nýlistasafnsins: Opið fyrir umsóknir um sýningu í ágúst/september 2019

nóv 19 2018 Published by under Uncategorized

Nýlistasafnið kallar eftir umsóknum um sýningu í ágúst/september 2019.

Bæði einka- og samsýningar koma til greina.

Með umsókninni skal fylgja ferilskrá ásamt stuttri lýsingu á inntaki og efnistökum sem viðkomandi hyggst vinna út frá á fyrirhugaðri sýningu (hámark 250 orð). Tillagan skal einnig innihalda upplýsingar um tæknileg atriði og uppsetningu.Að auki skulu fylgja með fimm myndir af fyrri verkum. Fyrir tímatengd verk, myndbands eða hljóðverk skal setja inn hlekk sem leiðir beint á Vimeo, Youtube eða álíka veitur. Vinsamlegast sendið ekki myndbönd eða hljóðverk beint í tölvupósti; aðeins hlekki. Senda skal umsóknir og allt efni sem þeim viðkemur, utan tímatengdra verka, í einu samhangandi PDF skjali. Skjölin mega ekki vera stærri en 10 MB.

Umsóknir sem ekki fara eftir umbeðnum kröfum og leiðbeiningum eða í vantar einhver gögn verða ekki teknar til greina.

Stjórn Nýló velur úr umsóknum.

Umsóknir berist fyrir miðnætti, 16. desember 2018 á netfangið nylo@gamla.nylo.is merktar „umsókn_2019“. Ekki verður tekið við útprentuðum umsóknum. Fyrirspurnir berist á sama netfang.

Einungis umsóknir fulltrúa Nýlistasafnsins, sem greitt hafa árgjaldið 2018, verða teknar til greina. Hægt er að fá upplýsingar um aðild að Nýlistasafninu með því að senda tölvupóst á nylo@gamla.nylo.is.

Praktískar upplýsingar:

Umsóknarfresti lýkur: 16.12.18, kl 23:59

Svar við umsókn berst ekki seinna en 15.01.19

Sýningartímabil: Seinni partur ágúst til lok september

No responses yet

Liminalities 04.11.2018

okt 31 2018 Published by under Uncategorized

Nýlistasafnið og Listahátíðin Cycle bjóða ykkur velkomin á Liminalities, tónleika og myndlistarsýningu, sunnudaginn 4. Nóvember kl. 20:00 í Marshallhúsinu. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Liminalities er þverfaglegt verkefni sem byggist á samstarfi milli myndlistarmanna, tónlistarmanna og tónskálda. Þegar einblínt er á listsköpun á einu sviði er ávallt mikilvægt að kanna hvað á sér stað á öðrum sviðum.

Ferlin sem felast í sköpun tónlistar og myndlistar eru nauðalík og spyrja svipaðra spurninga. Bæði svið einkennast af leik og tilraunamennsku. Verk tónlistarmanna sem og myndlistarmanna ávarpa áhorfendur og áheyrendur en einnig rýmið í kringum sig. Í Liminalities er sjónlistin ekki uppfyllingarefni á tónleikum og tónlistin er ekki í bakgrunni á myndlistarsýningum. Hér fæðir sjónlistin tónlistina og tónlistin ber sjónlistina áfram. Þar með upplifa aðnjótendur verkin á annan hátt.

Samstarf þeirra myndlistarmanna, tónlistarmanna og tónskálda sem taka þátt í Liminalities hófst í Berlín árið 2015 og hefur verið í stöðugri þróun síðan. Ýmsir viðburðir svo sem vinnustofur, kynningar og tónleikar hafa verið haldnir þar sem tónlistarmenn, tónskáld og listamenn hafa hisst og saman þróað hugmyndir sem í senn endurspegla samband tónlistarinnar við tímann og efniskennd sjónlistarinnar. Tónleikarnir í Nýlistasafninu fagna afrakstri þessarar vinnu.

No responses yet

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

  • Nýlistasafnið
  • Marshallhúsið
  • Grandagarður 20
  • 101 Reykjavík
  • Ísland

Opnunartímar

  • mið til sun 12 – 18
  • lokað á mánudögum og þriðjudögum
  • Almenningssamgöngur

    • Strætó: 14
    • Stöð: Grandi

Hafðu samband

  • S: +354 551 4350
  • N: nylo(at)gamla.nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar


map