Archive for apríl, 2016

skrælnun

apr 28 2016 Published by under Uncategorized

Þarf maður að vita hvenær verkið hefst?
Þarf maður að vita hvenær því er lokið?
Þarf maður að vita hvenær það er misheppnað?
Þarf maður að vita hver bjó það til?
Þarf maður að vita hver á það?
Þarf maður að vita frá hvaða tíma það er?
Þarf það að finnast?
Þarf ég að ákveða mín eigin verk?

Ásta Ólafsdóttir, Þögnin sem stefndi í nýja átt (1980)

Hvernig varðveitir maður hugmynd? Hvernig eiga söfn að takast á við varðveislu listaverka sem átti hugsanlega aldrei að varðveita? Hvert er framhaldslíf verka sem snúast um ferli frekar en lokaafurð—ferðalagið frekar en áfangastaðinn. Eru skammlíf listaverk minna virði en þeir sem ætlað er að endast um ókomna tíð og auðvelt er að forverja? Verkin á sýningunni hafa sumhver tekið á sig nýja mynd eftir langa dvöl í geymslum safnsins og illmögulegt að sýna þau í upprunalegu samhengi sínu. Eru þetta enn sömu verk? Ætti frekar að geyma slík verk sem forskrift að ferli í stað efnislegra leifa hugmyndarinnar?

Notkun hversdagslegra efna svo sem sements, laufblaða og matvæla einkennir verkin á sýningunni. Áhersla er lögð á ferlið og hugmyndina frekar en hlutinn sjálfan sem endanlegt listaverk. Önnur öfl en hönd listamannsins móta birtingarmynd verkanna. Þau taka form sitt af náttúruöflum, eðlislögmálum og styrkum höndum kvenna hjá Sláturfélagi Suðurlands.

SKRÆLNUN vekur upp spurningar um framhaldslíf konseptlistaverka og gildi forvörslu.

Verk Kristjáns Guðmundssonar (f. 1941) heitir Skúlptúr og samanstendur af súrri blóðmör og spjaldi sem búið er að stinga í keppinn. Á spjaldinu er spakmæli norska heimskautafarans Friðþjófs Nansen: „Það er til lítils að hlaupa ef stefnt er í skakka átt.“ Verkið var fyrst sýnt á einkasýningu Kristjáns í Gallerí SÚM í apríl árið 1970 ásamt 25 samskonar blóðmörskeppum og er líklega eina varðveitta eintakið. Þeir voru á víð og dreif á gólfi sýningarsalarins og þeim fylgdi súr lykt sem fyllti vit áhorfandans. Þegar fram liðu stundir skrælnaði keppurinn og varð steinrunninn. Ekki er hægt að sýna verkið eins og það var sýnt fyrir tæpri hálfri öld vegna þess hve viðkvæmur keppurinn er.

Bench #2 er samstarfsverkefni þýska listamannatvíeykisins Florian Wojnar (f. 1967) og Nikolai von Rosen (f. 1972). Verkið var gert fyrir sýninguna CharlieHotelEchoEchoSierraEcho sem haldin var í Nýlistasafninu árið 2010. Verkið samanstendur af fimm skúlptúrum sem steyptir voru með því að hella vatni ofan í sementspoka, hræra og leyft að harðna. Þannig umlauk pokinn steypuna, mótaði og gaf hverjum og einum skúlptúri einstakt útlit. Pappírspokinn var skrældur utan af og eftir sátu munúðarfullir en þunglamalegir búkar sem komið var fyrir á viðarramma líkt og þeir sætu saman á bekk.

Michael Gibbs (f. 1949, d. 2009) sýndi verk sitt Leavings í Gallerí Suðurgötu 7 í september árið 1978. Laufblöðum og bókasíðum var dreift um gólf sýningarsalarins. Titillinn vísar á hnyttinn hátt til þess að skilja eitthvað eftir sig og til laufblaðanna. Síðar var verkinu komið fyrir í sjö plastpokum sem númeraðir voru frá 1–7. Óráðlegt væri að sýna Leavings eins og Gibbs gerði fyrir fjórum áratugum síðan vegna þess hve viðkvæm skrælnuð laufblöðin eru.

Bókverk Ástu Ólafsdóttur (f. 1948) er hálfgerður laumufarþegi á sýningunni. Þögnin sem stefndi í nýja átt er ekki af sama hugmyndalega eða efnislega meiði og hin verkin en vangaveltur sýningarinnar kristallast í ljóðrænu textabroti Ástu. Spurningar hennar má einnig skoða í ljósi markmiða safnastarfs og ritun listasögunnar.

Sýningarstjórar eru Birkir Karlsson og Inga Björk Bjarnadóttir, meistaranemar í listfræði við Háskóla Íslands. Sýningin er samstarfsverkefni listfræðideildar HÍ og Nýlistasafnsins.

No responses yet

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

  • Nýlistasafnið
  • Marshallhúsið
  • Grandagarður 20
  • 101 Reykjavík
  • Ísland

Opnunartímar

  • mið til sun 12 – 18
  • lokað á mánudögum og þriðjudögum
  • Almenningssamgöngur

    • Strætó: 14
    • Stöð: Grandi

Hafðu samband

  • S: +354 551 4350
  • N: nylo(at)gamla.nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map