Archive for maí, 2015

Vorverk / Listamannaspjall og gjörningur

maí 29 2015 Published by under Uncategorized

Nýlistasafnið býður ykkur hjartanlega velkomin á leiðsögn og spjall um sýninguna Vorverk / Spring Task eftir Kristínu Helgu Káradóttur, laugardaginn 30. maí klukkan 15:00. Listakonan verður á staðnum. Kaffi/kakó og pönnukökur. Allir velkomnir.

Sýningin Vorverk er sú síðasta í sýningaröðinni Hringhiminn og er hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2015. Sýningin stendur til 13. júní.

Með draumkenndum raunsæistón fagnar listakonan komu vorsins með tilheyrandi togstreitu hið innra og hið ytra. Veturinn hefur losað tök sín og umbreyting árstíðanna birtist í hráum sýningarsal í manngerðu umhverfi fjarri náttúrunni. Jarðveg sýningarinnar skapaði listakonan út frá samfélaginu í kringum Nýlistasafnið í Fellahverfi en jafnframt út frá veruleika listamannsins; einyrkjanum í sýningarsalnum. Á mörkum listforma mætast þessir tveir pólar. Vorverk fela í sér hreinsun andans ekki síður en umhverfisins og stuðla að grunni fyrir vöxt og einingu lífs.

Úr sýningarskrá:

Hlutskipti einyrkjans
er að tala við sjálfan sig
í þögninni
í garðinum
í stílabókinni
í sýningarsalnum.
En þegar verkin tala máli einyrkjans
fæðist alltaf eitthvað nýtt
nýtt upphaf
samtal við heiminn.

I’m a female artist. Móðurmál mitt er íslenska.
Ég er móðir og ég er einstæð móðir.
Leita að konum af erlendum uppruna til þess að taka þátt í gjörningi
með von um samstarf.

Kristín Helga Káradóttir nam myndlist við Listaháskóla Íslands, lauk þaðan BA gráðu árið 2004 og MA gráðu árið 2014. Á námsárunum fór hún í skiptinám í Listakademíuna í Kaupmannahöfn og á Fjóni. Kristín Helga á að baki sýningarhald og vinnustofudvalir innan- sem utanlands. Verk hennar hafa ferðast víða um heiminn á sýningar og myndbandahátíðir.

Líkaminn og leikræn tjáning er öflugur miðill í verkum Kristínar Helgu. Verkin spanna myndbandsverk, gjörninga, ljósmyndir og innsetningar en mest vinnur Kristín Helga á mörkum þessara listmiðla. Listakonan notar sjálfa sig í gjörningaverk sín en upp á síðkastið hefur hún fengið til liðs við sig aðra flytjendur. Verk Kristínar Helgu eru tilvistarlegs eðlis, miðla ástandi og líðan manneskjunnar í tilteknu umhverfi en jafnframt hefur listkonan brugðið á leik með það að markmiði að setja áhorfendur í spurn eða kalla fram viðbrögð þeirra. MA-útskriftarverk Kristínar Helgu var langvarandi gjörningur í Gerðarsafni í Kópavogi er nefndist Andvarp.

Ljósmynd: Valgarð Gíslason, Listahátíð í Reykjavík 2015.

No responses yet

OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR / umsóknarfrestur er til 14. júní 2015

maí 08 2015 Published by under Uncategorized

UPPLÝSINGAR

Nýlistasafnið eða Nýló er listamannarekið sýningarrými og safn, vettvangur uppákoma, umræðna og gjörninga. Nýló er rekið án hagnaðarsjónarmiða og hefur lengi verið miðstöð nýrra strauma og tilrauna í íslenskri myndlist og hafa margar sýningar í Nýló markað tímamót í íslenskri listasögu.

Ár hvert stendur Nýló fyrir öflugri sýningadagskrá auk þess að safna og varðveita listaverk og heimildir sem tengjast frumkvöðlastarfi innan íslenskrar myndlistar.

Stjórn Nýlistasafnsins hefur ákveðið að taka á móti umsóknum um sýningar til 14. júní 2015.

Allar umsóknir skulu vera vandaðar og vel mótaðar. Val stjórnar miðast við sýningarstefnu og áherslur hverju sinni og áskilur stjórn sér rétt til þess að velja og hafna umsóknum án allra vandkvæða eða frekari útskýringa.

Umsækjendur eru beðnir um að gera grein fyrir í upphafi hvaða rými viðkomandi vill vinna með. Stjórn Nýló ákveður tíma valinna sýninga en umsækjendur eru hvattir til nefna ákjósanlega tímasetningu fyrir verkefni sín.

Stjórn og starfsfólk Nýlistasafnsins veitir aðstoð er varðar listrænar ákvarðanir og uppsetningu, sér um hönnun og prentun sýningarskrár ásamt kynningu og opnunarhóf valinna sýninga.

Annað framlag Nýló er samkomuatriði hverju sinni. Umsækjendur eru því hvattir til þess að sækja um fjárstyrki fyrir sýningar sínar annarsstaðar frá.

Umsóknir sem berast eftir auglýstan umsóknarfrest verða ekki teknar til athugunar.

SÝNINGARÝMI

Sýningar 2015-2016
Núllið er staðsett að Bankastræti Núll, 101 Reykjavík. Sýningarrýmið er í fyrrum kvennasalerni og aðstöðu sem staðsett er neðanjarðar, undir Bankastræti, og hefur verið friðað af Minjavernd Íslands. Rýminu er skipt upp í tvö hólf, vinstra megin er lítið hvítt sýningarrými en hægra megin standa salernisbásar sem eru nýtanlegir til sýningarhalds. Umsækjendur eru hvattir til að vinna með bæði rýmin.

Sýningar 2016
Verkefnarými Nýlistasafnsins er staðsett í gamla Breiðholtsbakaríi, Völvufelli, efra Breiðholti og er staðsett fyrir ofan safneign og skrifstofurými safnsins.

Lifandi Safneign er sýningarrými safneignar og er staðsett í Völvufelli, efra Breiðholt, inn af skrifstofurými safnsins. Sýningarými safneignar er ætlað að varpa ljósi á safneign Nýló eða heimildarsöfnin; arkíf um gjörninga eða arkíf um listamannarekin rými. Allar sýningartillögur fyrir þetta rými skulu taka mið af safneign eða heimildarsöfnum safnsins og/eða sögu þess.

Til að bóka heimsókn í safneign Nýlistasafnsins skal hafa samband við archive(at)gamla.nylo.is

Upplýsingar um safneign Nýlistasafnsins má nálgast á sarpur.is

Sjá grunnplön hér:

NullidBankastraeti0

ProjectSpace_Volvufell

LivingCollection_Volvufell

LEIÐBEININGAR FYRIR UMSÆKJENDUR

Þegar þú undirbýrð umsókn þína er gott að hafa stefnu og sögu Nýlistasafnsins í huga. Einnig er gott að taka mið af gólfplani þess sýningarrýmis sem þú hyggst sækja um.

Umsóknum skal skilað inn fyrir miðnætti, 14. júní með tölvupósti. Ekki verður tekið við útprentuðum umsóknum.

Umsóknir skulu innihalda eftirfarandi gögn:
1. Sýningartillögu. Tillagan skal einnig innihalda upplýsingar um tæknileg- og uppsetningarleg atriði, hámark 500 orð
2. Yfirlýsingu myndlistarmanns/hóps – artist statement, hámark 300 orð
3. Ferilskrá
4. Kostnaðaráætlun
5. Myndir af fyrri verkum og /eða skissur (hámark 10). Allar myndir skulu vera vel merktar upplýsingum um verkið: stærð, miðill, titil og ár.

Sýningartillaga, yfirlýsing listamanns, ferilskrá, kostnaðaráætlun og listi/upplýsingar um myndir skulu vera hjálögð sem PDF- skjal í tölvupósti. Ljósmyndum af verkum má skila í sér PDF skjali.

Skjalið skal ekki vera stærra en 8 MB. Umsóknum í formi word skjala eða í tölvupósti án viðhengja verða ekki teknar til greina.

Fyrir tímatengd verk, myndbands eða hljóðverk skal setja inn hlekk sem leiðir beint inn á rétta slóð tengda VIMEO, youtube o.s.frv. Vinsamlegast sendið ekki myndbönd eða hljóðverk beint í tölvupósti; aðeins hlekki.

Umsóknir og allt efni sem þeim viðkemur, utan tímatengdra verka, skal vera sent í einum tölvupósti.

Vinsamlegast sendið allar umsóknir á applications(at)gamla.nylo.is

No responses yet

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

  • Nýlistasafnið
  • Marshallhúsið
  • Grandagarður 20
  • 101 Reykjavík
  • Ísland

Opnunartímar

  • mið til sun 12 – 18
  • lokað á mánudögum og þriðjudögum
  • Almenningssamgöngur

    • Strætó: 14
    • Stöð: Grandi

Hafðu samband

  • S: +354 551 4350
  • N: nylo(at)gamla.nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map